Stenst Icesave stjórnarskrá?

Formaður fjárlaganefndar segir, að þrír þeirra fjögurra stjórnskipunarfræðinga, sem komu á fund nefndarinnar, telji ekki að frumvarp um um ríkisábyrgð vegna Icesave brjóti gegn stjórnarskránni. Fulltrúi Framsóknarflokksins í nefndinni segir hins vegar að fundurinn staðfesti óvissu.

„Við getum ekki falið okkur á bak við stjórnarskrána í því að taka afstöðu í þessu máli,“ segir Guðbjartur Hannesson, formaður fjárlaganefndar, í samtali við mbl.is.

Aðspurður um niðurstöður lögfræðinganna þriggja segir Guðbjartur: „Þær eru mjög afgerandi um að þetta sé mál sem verður að afgreiða án þess að vísa til stjórnarskrár. Það sé ekkert í stjórnarskránni sem hindri þennan gjörning varðandi frumvarpið. Þannig túlka ég það,“ segir hann.

Guðbjartur segir, að Eiríkur Tómasson, Björg Thorarensen og Ragnhildur Helgadóttir hafi komist að svipaðri niðurstöðu, en Sigurður Líndal vilji að farið verði betur yfir málið.

Guðbjartur segir að óskað hefði verið eftir því að nefndin tæki málið til umfjöllunar í miðri annarri umræðu á Alþingi um ríkisábyrgð á Icesave-skuldbindingunum. Tilefnið hafi verið grein Sigurðar Líndal prófessors, sem segi málið vera það stórt að það verði að skoðast hvort skuldbindingarnar stangist á við stjórnarskrá.

Guðbjartur segir að á fundinum hafi verið rætt um hvort þörf væri á að óska eftir frekari greinargerðum um málið. „Meirihluti lögfræðinganna taldi það ekki vera. Það kæmi ekkert nýtt fram. Það er enginn staður sem maður getur vísað þessu til. Það yrði að velja einhverja lögfræðinga og ekki líklegt að það myndi bæta neinu við málið,“ segir hann.

Hann segir að það sé í höndum þingsins og formanna stjórnmálaflokkanna að ákveða framhaldið. „Fjárlaganefndin tók enga afstöðu í lokin,“ segir Guðbjartur og bætir við að niðurstaðan hafi ekki verið það afgerandi að nefndin sendi frá sér sérstakt álit.

Höskuldur Þórhallsson, fulltrúi Framsóknarflokksins í fjárlaganefnd, sagði að fundurinn hafi sýnt fram á, að það ríki mikil óvissa um hvort lagasetningin um Icesave standist stjórnarskrá. Nauðsynlegt sé að fá fram ýtarlegt álit á því hvort lögin standist stjórnarskrána.

Höskuldur sagðist telja að um væri að ræða pólitískan hráskinnaleik hjá Samfylkingunni, að kalla til sérfræðinga, þar af tvo sem hefðu veitt ráðgjöf í samningagerðinni við Breta og Hollendinga og túlka svo fundinn sér í hag án þess að fyrir liggi skriflegar greinargerðir frá öðrum en Sigurði Líndal.

Önnur umræða um ríkisábyrgð á Icesave-skuldbindingunum heldur áfram á Alþingi á morgun.

Frá fundi fjárlaganefndar. Guðbjartur Hannesson er annar frá hægri. Myndin …
Frá fundi fjárlaganefndar. Guðbjartur Hannesson er annar frá hægri. Myndin er úr safni. mbl.is/Ómar
mbl.is