Segir norræn blaðamannafélög fara með rangt mál

Óskar Magnússon.
Óskar Magnússon. Eggert Jóhannesson

„Það sætir mikilli furðu að norrænir blaðamenn telji sig geta úthlutað tjáningarfrelsi og atvinnufrelsi á Íslandi eins og þeir virðast telja þegar þeir álykta gegn ráðningu ritstjóra Morgunblaðsins. Það geta þeir að sjálfsögðu ekki,'' segir Óskar Magnússon, útgefandi Morgunblaðsins, um ályktun sem norrænu blaðamannasamtökin hafa sent frá sér.

Í ályktuninni sagði m.a. að blaðamannafélögin hafi áhyggjur af þróun fjölmiðla hérlendis, ekki síst Morgunblaðsins. „Því er ranglega haldið fram í ályktuninni að ritstjóri Morgunblaðsins sæti einhverri rannsókn á Íslandi. Svo er ekki. Fjölmargir hafa gefið skýrslur fyrir rannsóknarnefndAlþingis þar á meðal blaðamenn. Það er alrangt að halda því fram að þessir aðilar sæti  rannsókn. Blaðamaður sem ber slíkt á borð fyrir lesendur er vondur blaðamaður,'' segir Óskar við mbl.is.

Óskar segir að kunnugleiki hinna norrænu blaðamanna á aðstæðum á Íslandi orki mjög tvímælis: „Þeir hafa ekki spurt um sjónarmið útgefanda Morgunblaðsins eins og góður blaðamaður á að gera. Og spyrja má, hvað hafa þeir lesið mikið af fréttaflutningi frá Íslandi og á hvaða tungumáli?  Var  ályktunin  samin undir áhrifum  frá formanni íslenska blaðamannafélagsins sem sagt var upp störfum á Morgunblaðinu nýlega? Er  það líklegt til hlutleysis? 

Það er ekki hlutverk blaðamanna að ákveða hvort menn sem ekkert hafa til saka unnið og sæta engum rannsóknum eða ákærum, hafi heimild  til að starfa á fjölmiðli eða tjá sig um málefni líðandi stundar. Nær væri að þeir læsu beitta og gagnrýna umfjöllun Morgunblaðsins og mbl.is og drægu svo ályktanir af verkum manna,'' segir Óskar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert