„Mikilvægt að fjölmiðlar bregðist ekki aftur“

Steingrímur J. Sigfússon
Steingrímur J. Sigfússon Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Fjármálaráðherra og starfandi menntamálaráðherra sagðist á Alþingi í dag deila áhyggjum af þróun á íslenskum fjölmiðlamarkaði. Hann sagði rekstrarerfiðleika þeirra mikið áhyggjuefni og einnig að fjölmiðlaflóran endurspegli þrengri hóp en áður. Ráðherra segir mikilvægt að fjölmiðlar bregðist ekki aftur.

Sigmundur Ernir Rúnarsson, þingmaður Samfylkingarinnar, spurði ráðherrann út í afstöðu sína til þessa mála, m.a. í ljósi yfirlýsingar norræna blaðamannafélaga. Sigmundur sagði stöðuna á fjölmiðlamarkaði æði undarlega og nægi að nefna tvö stærstu dagblöð landsins, sem hann sagði stýrt af lykilpersónum í efnahagshruninu.

Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra og starfandi menntamálaráðherra, sagði fulla ástæðu til að taka alvarlega varnaðarorð blaðamannafélaganna norrænu. Starfsöryggi blaðamanna væri minna en um árabil, mörgum hafi verið sagt upp og þar á meðal forystumönnum Blaðamannafélags Íslands; formanni, varaformanni og trúnaðarmönnum.

Steingrímur sagði að horfast þurfi í augu við það að fjölmiðlar beri sína ábyrgð á þeim ósköpum sem yfir þjóðina dundu, s.s. með gagnrýnileysi sínu og mærð á útrásina. Þeir hafi sofið á verðinum, líkt og fleiri.

„Nú er mikilvægt að fjölmiðlar bregðist ekki aftur og þeir verði með uppbyggilegum hætti þátttakendur í þeirri endurreisn og endurmótun sem þarf að verða í samfélaginu en stundi ekki stanslaust hefndarkennda niðurrifsstarfsemi eins og því miður bólar talsvert á á sumum bæjum,“ sagði Steingrímur en nefndi ekki hvaða bæi hann átti við.

Í yfirlýsingu blaðamannafélaganna á hinum Norðurlöndunum er m.a.  undirstrikað mikilvægi þess að íslenskir fjölmiðlar viðhaldi sjálfstæði sínu í kjölfar efnahagshrunsins. Fjölmiðlarnir verði að geta upplýst almenning um hvað gerðist og hvað valdhafar séu nú að gera.

Að mati þeirra sem fréttatilkynninguna rita er staða Morgunblaðsins, elsta dagblaðsins á Íslandi, sérlega alvarleg. Þar hafi eigendur ráðið Davíð Oddsson, fyrrum forsætisráðherra landsins sem var Seðlabankastjóri þegar efnahagur landsins hrundi, í ritstjórastólinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert