Valbjörn Þorláksson látinn

Valbjörn Þorláksson
Valbjörn Þorláksson

Valbjörn Júlíus Þorláksson frjálsíþróttamaður lést á hjúkrunarheimilinu Skógarbæ í gær, 75 ára að aldri. Hann var einn af kunnustu íþróttamönnum landsins á sinni tíð.
Valbjörn fæddist á Siglufirði 9. júní 1934 sonur hjónanna Ástu Júlíusdóttur og Þorláks Antons Þorkelssonar.

Hann hóf íþróttaferilinn í knattspyrnu á Siglufirði og hélt áfram að leika knattspyrnu í Keflavík eftir að fjölskyldan flutti þangað. Þar varð hann Íslandsmeistari með 2. flokki ÍBK. Hann sneri sér fljótt að frjálsum íþróttum og varð mikill afreksmaður á því sviði, ekki síst í stangarstökki og tugþraut.

Hann keppti með ÍR, Ármanni og KR og einnig fyrir hönd þjóðarinnar erlendis, meðal annars á þremur Ólympíuleikum. Hann var kosinn Íþróttamaður ársins tvisvar, 1959 og 1965, en seinna árið varð hann Norðurlandameistari í tugþraut. Síðar varð hann heimsmeistari í flokki öldunga.

Valbjörn starfaði á Laugardalsvellinum í áratugi. Hann eignaðist sex börn.

mbl.is