Sjö úrskurðir Íslandi í hag

Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) hefur gefið út sjö bráðabirgðaúrskurði varðandi kvartanir frá erlendum fjármálastofunum varðandi íslensku bankanna. Í öllum tilvikum fellst ESA á sjónarmið íslenska ríkisins.

Sem kunnugt er tilkynnti Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) með bréfi dags. 4. desember sl. að stofnunin hefði komist að bráðabirgðaniðurstöðu vegna kvörtunar hóps almennra kröfuhafa á hendur gömlu bönkunum, vegna aðgerða íslenskra yfirvalda í tengslum við setningu laga nr. 125/2008 (sk. neyðarlaga). Bráðabirgðaniðurstaða ESA var sú að ákvæði laganna, einkum varðandi forgang sem innstæðum var veittur og ráðstafanir íslenskra stjórnvalda á grundvelli laganna, samræmist EES-samningnum og öðrum lagalegum skilyrðum.

ESA benti á að önnur úrræði hafi ekki verið sjáanleg en þau sem gripið var til sem hefðu getað spornað við algjöru hruni efnahagslífsins á Íslandi. Jafnframt féllst ESA á það sjónarmið stjórnvalda að neyðarlögin og ákvarðanir FME hafi verið einu aðgerðirnar sem voru trúverðugar við þær aðstæður sem uppi voru.

ESA hefur nú tilkynnt um bráðabirgðaniðurstöðu vegna sjö annarra kvartana erlendra fjármálastofnana sem eru almennir kröfuhafar gagnvart einhverjum af gömlu bönkunum, vegna laganna og aðgerða íslenskra yfirvalda í tengslum við þau. Bráðabirgðaniðurstaða ESA er í öllum tilvikum á sama veg og í niðurstöðunni frá 4. desember, þ.e. fallist er á sjónarmið Íslands í málunum, forgangur sem innstæðum var veittur fær staðist að mati ESA og íslensk stjórnvöld höfðu að mati stofnunarinnar rétt til að verja bankakerfið og almannaöryggi. Ekki er fjallað um hugsanlega mismunun milli innlendra og erlendra innstæðueigenda í neinu þessara mála, fremur en í því máli sem tilkynnt var um þann 4. desember, að því er segir í tilkynningu frá forsætisráðuneytinu.

Sjá nánar hér

mbl.is

Bloggað um fréttina