Akureyri hefur tapað mestum kvóta

Akureyri hefur tapað mestum fiskveiðikvóta í þorskígildum talið á undanförnum 10 árum en Reykjavík hefur bætt mest við sig. Þetta kemur fram í svari sjávarútvegsráðherra við fyrirspurn á Alþingi.

Sigmundir Ernir Rúnarsson, þingmaður Samfylkingarinnar, spurði ráðherra hvaða byggðarlög hafi aukið mest við sig fiskveiðikvóta á síðustu 10 árum og hvaða byggðarlög hafi tapað mestum fiskveiðikvóta á sama tíma.

Af töflum í svarinu má ráða, að hlutdeild Akureyrar sem heimahöfn veiðiskipa, hafi dregist saman um um 5,4 prósentur í úthlutun á aflaheimildum í þorskígildistonnum milli fiskveiðiáranna 2000/2001 og 2009/2010. Hlutdeild Reykjavíkur hefur á sama tíma aukist um 5,1 prósentu.

Reykjavík er nú með 13,9% af úthlutuðum kvóta, Vestmannaeyjar eru með 10,5% og hefur hlutdeild þeirra aukist um 2,8 prósentur undanfarinn áratug; og Grindavík er með 9,8% og hefur hlutdeildin aukist um 3,9 prósentur. Hlutdeild Akureyrar er 4,8% en var 10,2% fyrir áratug.

Svar sjávarútvegsráðherra

mbl.is

Bloggað um fréttina