Skuldir þjóðarbúsins heldur meiri en talið var

Seðlabankinn áætlar að í árslok 2010 nemi skuldir þjóðarbúsins 5.150 milljörðum króna eða 320% af vergri landsframleiðslu. Þetta er heldur meira en í síðasta mati Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, en þar voru skuldirnar metnar 295% af landsframleiðslu miðað við árslok 2010.

Seðlabankinn tekur fram að þetta mat sé háð mikilli óvissu og sé í sífelldri endurskoðun. Matið eigi eftir að taka breytingum þegar fram líða stundir.

Nokkrar ástæður eru fyrir því að skuldastaðan hefur hækkað. Í fyrsta lagi er gert ráð fyrir að Icesave-skuldin (brúttó) verði nokkuð hærri í árslok 2010 en áður var talið. Hún verði þá u.þ.b. 800 milljarðar með áföllnum vöxtum. Ástæðan fyrir þessu er að endurheimtur úr búi gamla Landsbankans skila sér ekki fyrr en á árinu 2011 vegna mála sem eftir er að útkljá fyrir dómstólum.

Í öðru lagi er áætlað að taka þurfi lán upp á 300 milljarða vegna gjaldeyrisforða Seðlabankans til viðbótar því sem lá fyrir í lok þriðja ársfjórðungs 2009.

Í þriðja lagi er eftirstöðvaskuldabréf milli gömlu og nýju bankanna að andvirði 314 milljarðar króna nú meðhöndlað sem skuld við erlenda aðila þótt formlega séu gömlu bankarnir innlendur aðili.

Í fjórða lagi er lausleg áætlun um niðurfellingu skulda vegna gjaldþrota annarra fyrirtækja en gömlu bankanna sem eru í gjaldþrotameðferð, en skuldir þeirra eru með í yfirliti Seðlabankans um erlendar skuldir. Áætlað er að tæplega 300 milljarðar verði afskrifaðar.

Í fimmta lagi nema ýmsar aðrar leiðréttingar 400 milljörðum til hækkunar á heildarskuldum þjóðarbúsins.

Heildarskuldir hins opinbera eru áætlaðar 2.024 milljarðar eða 129% af vergri landsframleiðslu. Skuldir án Icesave eru áætlaðar 1.794 milljarðar eða 114% af landsframleiðslu (miðað er við 88% endurheimtur af Icesave).

Mat Seðlabankans felur í sér að skuldir hins opinbera mælast nú u.þ.b. 7 prósentustigum lægri en í síðasta mati Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert