Vilja vísa Icesave frá

Þingmenn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks vilja að Icesave-frumvarpi verði vísað frá.
Þingmenn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks vilja að Icesave-frumvarpi verði vísað frá. mbl.is/Heiðar

Þingmenn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks í fjárlaganefnd Alþingis hafa á ný lagt til að frumvarpi fjármálaráðherra um ríkisábyrgð vegna Icesave-skuldbindinganna, verði vísað frá á Alþingi. Nú stendur yfir þriðja umræða um frumvarpið.  

Þingmenn Sjálfstæðisflokks vilja að frumvarpinu verði vísað frá Alþingi en þingmenn Framsóknarflokks, að frumvarpinu verði vísað til ríkisstjórnarinnar.  Þingmaður Hreyfingarinnar í fjárlaganefnd segist ekki geta mælt með að Alþingi samþykki nýja útgáfu af ríkisábyrgð vegna Icesave-samninganna.

Í nefndaráliti þingmanna Sjálfstæðisflokksins, sem dreift var á Alþingi í  dag, segir m.a. að fjárlaganefnd hafi ekki gefist tími til að fara yfir ítarlegar álitsgerðir frá Mishcon de Reya og IFS-greiningu um efni þessara Icesave-samninganna. Þá virðist ríkisstjórnin enn leyna trúnaðargögnum um þessa samningsgerð, sem telja verði hreint ábyrgðarleysi af ríkisstjórn, ekki síst þegar um sé að ræða mál sem varði  þjóðarheill. Flestir þeir sérfræðingar sem komið hafi á fund fjárlaganefndarinnar gagnrýna samningana harðlega en illu heilli hafi ekki verið hlustað á þá og raunar hafi fjármálaráðherra þjóðarinnar lagt sig fram við að gera lítið úr þeim álitsgerðum sem fengist hafa þegar hann ætti þvert á móti að fagna því að menn taki málstað Íslendinga. 

Þá segja þingmennirnir að samningnir, eins og þeir standi nú, vegi að sjálfstæði þjóðarinnar og stefni tækifærum ungra Íslendinga í voða. Alþingi Íslendinga á árinu 2009 hafi ekki leyfi til að binda hendur ófæddra Íslendinga á jafnveikum grunni og þarna sé gert.

„Þetta eru stórhættulegir gjörningar sem alls ekki má samþykkja. Á fyrri öldum stóðu Íslendingar saman gegn ofríki erlendra þjóða. Því er vart hægt að trúa að nú ætli ráðamenn þjóðarinnar að leggjast flatir fyrir slíku valdi," segir m.a. í nefndarálitinu. Er lagt til að formenn allra flokka á Alþingi reyni að taka upp viðræður við Breta og Hollendinga í úrslitatilraun til að verja hagsmuni þjóðarinnar. 

Nefndaráliti meirihluta fjárlaganefndar

Nefndarálit þingmanns Hreyfingarinnar

Nefndarálit þingmanns Framsóknarflokks

Nefndarálit þingmanna Sjálfstæðisflokks

mbl.is

Bloggað um fréttina