Drengur fær bætur fyrir handtöku

Borgarnes.
Borgarnes.

Héraðsdómur Reykjavíkur hefur dæmt íslenska ríkið til að greiða 17 ára gömlum pilti 70 þúsund krónur í bætur fyrir ólögmæta frelsissviptingu.

Málavextir eru þeir, að pilturinn var staddur í verslun í Borgarnesi í janúar þegar lögreglan þar í bæ hafði af honum afskipti og  bað hann að veita öndunarsýni. Sýnið gaf ekki til kynna að pilturinn hefði neytt áfengis.

Lögreglan óskaði þá eftir því að pilturinn gæfi þvagsýni á lögreglustöð og var farið þangað í lögreglubíl. Pilturinn dvaldi á lögreglustöðinni í um tvær stundir en fór þaðan þegar hann hafði gefið þvagsýnið.

Piltinum var sagt, að lögregla hefði fengið ábendingu um að hann hefði verið á þorrablóti í Borgarbyggð kvöldið áður þar sem hann hefði verið ölvaður og boðið fíkniefni.  Ekki var leitað í bíl piltsins að fíkniefnum.

Lögmaður piltsins óskaði eftir því við lögreglu í febrúar að hún upplýsti hver hefði borið piltinn röngum sökum en því var hafnað. Þá kom fram, sá skilningur lögreglu, að pilturinn hafi farið sjálfviljugur á lögreglustöð og að hann hafi ekki verið sviptur frelsi sínu.  Pilturinn sagðist hins vegar hafa litið svo á að hann ætti einskis annars úrkosti. Hann hefði verið sviptur stjórnarskrárbundnu frelsi sínu með ólögmætum hætti og krafðist bóta.

Héraðsdómur segir, sú upplifun sem pilturinn lýsti fyrir dómi af dvöl sinni á lögreglustöðinni ´sé með þeim hætti að hann taldi sig ekki geta yfirgefið lögreglustöðina, án þess að eiga á hættu að vera beittur einhvers konar þvingun.  Sé það mat dómsins, að pilturinn hafi verið ólögmætt sviptur frelsi sínu og að lögreglu hefði borið að tilkynna honum að hann væri handtekinn og kynna honum rétt sinn sem handtekins manns. Einnig hafi lögreglu borið að gæta að ákvæðum  barnaverndarlaga.

Taldi héraðsdómur að pilturinn ætti rétt á að fá 70 þúsund krónur í bætur.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert