Fyrst þyrfti löggjöf um þjóðaratkvæði

Umræðu um Icesave-málið verður haldið áfram á Alþingi í dag.
Umræðu um Icesave-málið verður haldið áfram á Alþingi í dag.

Árni Þór Sigurðsson, formaður utanríkismálanefndar Alþingis og þingmaður VG, segir að ef tillaga Péturs H. Blöndal, þingmanns Sjálfstæðisflokks, um þjóðaratkvæðagreiðslu um Icesave-ábyrgðirnar yrði samþykkt þyrfti fyrst að setja ákveðna löggjöf og ramma um það hvernig slíkar þjóðaratkvæðagreiðslur skuli fara fram. Það myndi væntanlega taka einhverja mánuði.

„Auk þess er það yfirleitt svo hjá þeim þjóðum sem hafa slíkan ramma að mál af ýmsum gerðum eru undanskilin þjóðaratkvæðagreiðslum, s.s. fjárlög, skattamál, þjóðréttarlegar skuldbindingar og slíkir hlutir. Þetta mál er þeirrar gerðar. Ég sé ekki að þetta sé bært til að setja í þann farveg,“ segir Árni og bendir auk þess á að Bretar og Hollendingar séu ekki líklegir til að vilja bíða eftir því að slík löggjöf yrði sett. „Ætli þeir væru þá ekki farnir að beita okkur einhverjum þrýstiaðgerðum á alþjóðavettvangi til að ljúka málinu.“

Pétur lagði í gærkvöldi fram  breytingartillögu við lagafrumvarp um ríkisábyrgð vegna Icesave-skuldbindinganna. Tillagan gengur út á að fjármálaráðherra sé heimilt að veita ríkisábyrgðina, en aðeins að undangenginni þjóðaratkvæðagreiðslu.

Forsetans að ákveða fyrir hönd þjóðar

Þráinn Bertelsson, óháður þingmaður, talaði á sínum tíma fyrir stefnuskrá Borgarahreyfingarinnar. Í henni segir að þjóðaratkvæðagreiðsla skuli fara fram um mál sem varða þjóðarhag óski 7% þjóðarinnar þess. Þá skuli bera alla samninga sem framselja vald undir þjóðaratkvæðagreiðslu. Hann telur slíkar atkvæðagreiðslur hins vegar ekki allra meina bót.

„Þær eiga ekki alltaf við og við fyrstu sýn virkar tillaga Péturs á mig líkt og taktík til að draga þetta þungbæra mál enn á langinn. Ég held að það þjóni ekki þjóðarhagsmunum í augnablikinu,“ segir Þráinn og bætir við að best sé að þingið slái botn í málið á morgun. „Það er svo forsetans, fyrir hönd þjóðarinnar, að ákveða hvort hann staðfestir lögin eða ekki.“

mbl.is

Bloggað um fréttina