Önnur tillaga um þjóðaratkvæðagreiðslu

Þingmenn ræða nú um Icesave-frumvarpið.
Þingmenn ræða nú um Icesave-frumvarpið. mbl.is/Kristinn

Þingmenn Framsóknarflokksins og Hreyfingarinnar hafa lagt fram þingsályktunartillögu á Alþingi um að fram fari óbindandi þjóðaratkvæðagreiðsla um hvort veita eigi ríkisábyrgð vegna Icesave-skuldbindinga íslenska ríkisins.

Þingmaður Sjálfstæðisflokksins lagði í gærkvöldi fram breytingartillögu við frumvarp ríkisstjórnarinnar um Icesave-skuldbindingarnar, sem þingmenn eru nú að fjalla um.  Sú tillaga gerði ráð fyrir því, að ríkisábyrgð samkvæmt væntanlegum lögum tæki ekki gildi nema hún yrði samþykkt í  þjóðaratkvæðagreiðslu. 

Samkvæmt þingsályktunartillögunni, sem Höskuldur Þórhallsson er fyrsti flutningsmaður að, á að spyrja þjóðina eftirfarandi spurningar: „Á Alþingi Íslendinga að samþykkja breytingar á ríkisábyrgð á skuldbindingum Landsbanka Íslands hf. vegna Icesave-reikninganna, sbr. frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 96/2009?

Í greinargerð með tillögunni segir, að ljóst sé að úrslit þjóðaratkvæðagreiðslunnar yrðu ekki bindandi í sjálfu sér. „Þó má telja að Alþingi og ríkisstjórnin mundu í kjölfarið lúta niðurstöðu hennar, eins og títt er í nágrannalöndum okkar um þjóðaratkvæðagreiðslur sem ekki eru bindandi fyrir stjórnvöld. Lagt er til að atkvæðagreiðslan fari fram eins fljótt og auðið er og í samræmi við frumvarp til laga um þjóðaratkvæðagreiðslur sem nú er til umfjöllunar hjá allsherjarnefnd þingsins."

Þingsályktunartillaga Framsóknarflokks og Hreyfingar

Breytingartillaga Péturs H. Blöndal

mbl.is