Vilja bæta samband ESB við Kúbu

Jose Luis Rodriguez Zapatero, forsætisráðherra Spánar.
Jose Luis Rodriguez Zapatero, forsætisráðherra Spánar. Reuters

Spánverjar ætla að vinna að bættum samskiptum við Rómönsku-Ameríku þá sex mánuði sem þeir gegna forystu í Evrópusambandinu (ESB). Þeir ætla einkum að bæta samskiptin við Kúbu auk þess að takast á við aðsteðjandi efnahagsvanda. 

Spánverjar taka við forystunni í ESB þann 1. janúar 2010. José Luis Rodriguez Zapatero, forsætisráðherra Spánar, verður fyrsti leiðtogi ESB-ríkis sem þarf að deila forystu sambandsins með nýkjörnum forseta þess, Herman Van Rompuy. 

Ríkisstjórn Zapateros hefur þó fullan hug á að láta að sér kveða. Hún ætlar að leita eftir nýjum tvíhliða samningi milli Kúbu og ESB, þrátt fyrir mótbárur  Svía og Tékka, sem gegnt hafa forystu ESB undanfarið, og mannréttindahópa á Kúbu.

Spánverjar hafa löngum verið í forystu þeirra sem vilja bæta samskiptin við Kúbu, en landið var áður fyrr spænsk nýlenda.  Þeir munu vilja binda endi á þá afstöðu sem ESB tók til Kúbu árið 1996. Í henni fólst krafa um bætt mannréttindi og aukið lýðræði á Kúbu áðurn en samskipti við landið gætu orðið eðlileg. 

Miguel Angel Moratinos, utanríkisráðherra Spánar, sagði í spænska þinginu í síðustu viku að ESB myndi „gera mistök“ ef það héldi áfram að grundvalla samskipti sín við kommúnistaeyjuna á þessu „diplómatíska verkfæri“. Hann taldi að best yrði unnið að umbótum á Kúbu með viðræðum sem byggðu á staðfestu og virðingu. 

Hann sagði að pólitískum föngum á Kúbu hafi fækkað úr 300 í 200 og að Raul Castro, sem tók við forsetaembætti af Fidel bróður sínum í febrúar í fyrra, hafi sýnt vilja til umbóta. 

Ernesto Gutierrez Tamargo, aðalritari spænskra samtaka um kúbönsk málefni (FECU), sagði í samtali við AFP fréttastofuna að það væru „mjög alvarleg mistök“ að breyta afstöðu ESB. Hann færði þau rök að Kúbverjar hafi sýnt útréttri sáttarhönd forseta Bandaríkjanna lítilsvirðingu og þeir myndu bregðast eins við Evrópu. 

mbl.is

Bloggað um fréttina