Alþingi samþykkti Icesave

Þingmenn fylgjast með umræðum á Alþingi í kvöld.
Þingmenn fylgjast með umræðum á Alþingi í kvöld. mbl.is/Ómar

Frumvarp ríkisstjórnarinnar um ríkisábyrgð vegna Icesave-skuldbindinganna var samþykkt í tilfinningaþrunginni atkvæðagreiðslu á Alþingi á tólfta tímanum í kvöld með 33 atkvæðum gegn 30. Atkvæðagreiðslan tók 3 klukkustundir.

Tveir þingmenn Vinstrihreyfingarinnar-græns framboðs, þau Lilja Mósesdóttir og Ögmundur Jónasson, greiddu atkvæði gegn frumvarpinu en aðrir stjórnarþingmenn studdu það og einnig Þráinn Bertelsson, óháður þingmaður. Allir þingmenn Sjálfstæðisflokks, Framsóknarflokks og Hreyfingarinnar greiddu atkvæði gegn frumvarpinu. 

Alls gerðu 44 þingmenn grein fyrir atkvæði sínu og voru margir harðorðir en atkvæðagreiðslan tók alls tæpar þrjár klukkustundir. Sýnishorn af ummælum þeirra fara hér á eftir:

Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra, sagðist trúa því, að sagan muni sýna að þingmenn væru að gera rétt með því að samþykkja frumvarpið. „Að endurreisn Íslands, sjálfstætt og velmegandi í samfélagi þjóðanna muni verði sönnunin. Ég mun reyna að leggja mitt að mörkum að svo verði meðan lífsandinn höktir í nösum mér og ég má vinna Íslandi nokkuð gagn."

Árni Johnsen, þingmaður Sjálfstæðisflokks, sagði að landsmenn væru nú að upplifa Kópavogsfundinn árið 1662 og Þjóðfundinn 1851 og menn hlytu nú að skilja betur vanlíðan landsmanna á þeim ólánsstundum. Skelfilegt væri að sjá ríkisstjórnina leiða Ísland fram sem nýlendu Breta og Hollendinga.

Ásbjörn Óttarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, sagðist vísa allri ábyrgð á hina ömurlegu Icesave-kommúnistastjórn.  

Björn Valur Gíslason, þingmaður Vinstri grænna, sagðist þakka samninganefnd Íslands fyrir að ná fram þessum góðu samningum í ömurlegu máli, sem ríkisstjórnin hefði fengið í arf frá fyrri ríkisstjórn. 

Eygló Harðardóttir, þingmaður Framsóknarflokks, sagðist ekki geta séð hvernig Íslendingar ættu að geta staðið undir þeim skuldbindingum, sem þeir hefðu þegar undirgengist, og því væri vonlaust að þeir geti bætt þeim skuldbindingum við, sem felast í Icesave.

Guðbjartur Hannesson, þingmaður Samfylkingarinnar, sagði að erfitt, flókið og risastórt mál væri nú leitt til lykta og að baki væri vönduð umfjöllun. Sagðist Guðbjartur velja skásta kostinn í stöðunni og samþykkja frumvarpið,  vitandi að íslenska þjóðin hefði alla burði til að standa undir þessum skuldbindingum og geti horft björtum augum til nýs árs.

Guðlaugur Þór Þórðarson, þingmaður Sjálfstæðisflokks, sagði að menn sætu uppi með verstu samningsmistök Íslandssögunnar og það ekki einu sinni heldur tvisvar.  

Lilja Rafney Magnúsdóttir, þingmaður VG, sagði frelsarinn hefði þurft að bera syndir mannanna. Eins þyrftu heiðarlegir Íslendingar  að axla skuldbindingar útrásarvíkinganna og pólitískra meðreiðarsveina þeirra með því að taka pólitíska ábyrgð á Icesave-skuldbindingum Landsbankans og drekka þennan kaleik þótt beiskur sé.

Gunnar Bragi Sveinsson, þingmaður Framsóknarflokksins, sagði að ríkisstjórnin væri vanhæf og það væru þingmenn hennar, sem þyrftu að bera þann kross sem Icesave-skuldbindingarnar væru.

Illugi Gunnarsson sagði að þingmönnum væri ekki heimilt að láta beygja þjóðina með þessum hætti undir erlend ríki og það væri hörmulegt að þingmenn skyldu ekki hafa náð samstöðu um það. 

Magnús Orri Scram, Samfylkingunni, sagði að brennuvargarnir ættu ekki að flækjast fyrir slökkvistarfi. Icesave-skuldbindingin núvirt væri um 200 milljarðar eða 10-20% af heildarskuldum ríkisins. Skuldin vegna slæmrar stjórnar Seðlabankans síðustu mánuði fyrir hrun væri 270 milljarðar og Íslendingar væru þegar byrjaðir að greiða af henni.

Margrét Tryggvadóttir, Hreyfingunni, sagði að sér hugnaðist ekki að einkavæða gróðann og ríkisvæða tapið. Íslendingar geti ekki tekið þessar byrðar á sig án þess öryggisbúnaðar, sem þingið smíðaði í sumar. 

Pétur Blöndal sagði nei, nei, nei og það gerði einnig Unnur Brá Konráðsdóttir. Hún og fleiri stjórnarandstæðingar sögðu, að greinilegt samhengi væri á milli þessa máls og umsóknarinnar um aðild að Evrópusambandinu.

Róbert Marshall, þingmaður Samfylkingarinnar, sagði að mistekist hefði að afgreiða þetta mál þannig að sómi væri að. Það væri hins vegar upphafið að nýrri byrjun með því að samþykkja frumvarpið.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, þingmaður Framsóknarflokks, sagðist hafa verið afar ósáttur með það hvernig fyrri ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar hélt á Icesave-málinu en það hefði samt verið mun mynduglegra en núverandi ríkisstjórn hafi gert. 

Þór Saari, þingmaður Hreyfingarinnar, sagði að verið væri að greiða atkvæði um breytingartillögur Breta og Hollendinga við lög sem Alþingi setti í sumar. 

Þráinn Bertelsson, óháður þingmaður, sagðist samþykkja nauðungarsamning fullur trega en minnti jafnframt á að sú lagalega skuldbinding, sem fylgi nauðungarsamningum, sé einskis virði.

Ögmundur Jónasson, VG, sagði að í kvöld hefði verið brugðið spegli yfir þingið og í honum sæist ekki aðeins þinghaldið nú heldur einnig á undangengnum þingum. Þar væri ýmislegt kunnuglegt en með öfugum formerkjum og menn þyrftu að læra af mistökum sínum. 

Arndís Soffía Sigurðardóttir, VG, sagði að Alþingi hefði þverpólitískt fallið á prófinu í Icesave-málinu en hún væri samt sannfærð um að niðurstaðan nú væri skásti kosturinn í stöðunni. 

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, Samfylkingunni, sagði að  stjórnarandstæðingar væru í djúpri afneitun vegna þess að þeir hefðu notað 180 stundir til að berja höfðinu við steininn og vildu ekki horfast í augu við afleiðingar gerða sinna. Sagðist Sigríður vonast til þess að þingmenn fylki nú liði með þeim sem trúi á bjarta framtíð íslensku þjóðarinnar.

Siv Friðleifsdóttir, þingmaður Framsóknarflokks, sagðist ósátt við niðurstöðuna í Icesave-málinu. Umræðurnar hefðu verið harkalegar og mörg þung orð fallið á báða bóga. Sagði hún að sér líkaði heldur illa við þær sakbendingar sem oft á tíðum hafi fallið í umræðunni. Bæði stjórnarsinnar og stjórnarandstæðingar hefðu reynt að gera sitt besta og menn ættu því að halda reisn sinni og ró virða hver annan þótt tímar væru erfiðir.

Tryggvi Þór Herbertsson og Lilja Mósesdóttir greiddu bæði atkvæði gegn …
Tryggvi Þór Herbertsson og Lilja Mósesdóttir greiddu bæði atkvæði gegn frumvarpinu. mbl.is/Ómar
Ólína Þorvarðardóttir studdi frumvarpið en Ögmundur Jónasson var andvígur því.
Ólína Þorvarðardóttir studdi frumvarpið en Ögmundur Jónasson var andvígur því. mbl.is/Ómar
Þingmenn á Alþingi í kvöld.
Þingmenn á Alþingi í kvöld. mbl.is/Ómar
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert