Búnir að fá tölvupóstana

Bjarni Benediktsson í ræðustóli Alþingis.
Bjarni Benediktsson í ræðustóli Alþingis. mbl.is/Ómar

Formenn flokkana eru búnir að fá tölvupósta sem gengu á milli bresku lögmannsstofunnar Mishcon de Reja annars vegar og fjármálaráðuneytisins og Icesave-samninganefndarinnar sl. vor og sumar. Formennirnir eru núna að fara yfir gögnin. Umræða um Icesave-frumvarpið hófst að nýju klukkan 15 á Alþingi.

Stjórnarandstaðan hafði krafist þess að fá að sjá þessa tölvupósta áður en umræður um Icesave málið yrði kláruð. Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, sagði að öll gögn sem stjórnarandstaðan hefði kallað eftir væru komin í hús.

Bjarni segir að í tölvupóstunum komi fram að Svavar Gestsson, formaður Icesave-samninganefndarinnar, hafi lagt mikla áherslu á að það sem snéri að hugsanlegri málssókn gegn breska fjármálaeftirlitinu færi hljótt. „Það rímar ágætlega við það sem áður hefur komið fram að þetta atriði hafi verið tekið út úr kynningu um þetta mál í vor.“

„Mér sýnist að gögnin  segi okkur það að þessir bresku lögmenn telji að breska fjármálaeftirlitið hafi verið í mjög vondum málum enda hefur komið á daginn að sá banki [Heritable Bank] meira og minna stendur undir öllum sínum skuldbindingum þrátt fyrir að hafa verið felldur. Þessar aðgerðir breskra stjórnvalda munu á endanum lenda á íslenskum skattgreiðendum ef að ríkisstjórnin vill að við tökum ábyrgð á þeim kröfum sem standa á Landsbankanum vegna innistæðna,“ sagði Bjarni.

Guðbjartur Hannesson, formaður fjárlaganefndar, sagði að það væri ekkert nýtt í þessum gögnum. Í tölvupóstunum væru menn m.a. að tala sama um hvort reikningar yrðu greiddir og fleira þess háttar. „Eitt af gögnunum sem eru hvað merkilegust er skrifað löngum eftir að málinu er lokið. Bein afskipti lögmannsstofunnar lauk 31. mars, en um mitt sumar skrifar stofan tölvupóst þar sem lögmennirnir ræða um hvernig málið hafi þróast. Ef það er orðið málsgagn í málinu þá er þetta bara orðið grín.“ 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert