14 ára stúlka fær bætur fyrir ólöglega handtöku

Héraðsdómur Norðurlands eystra.
Héraðsdómur Norðurlands eystra. mbl.is/Skapti

Héraðsdómur Norðurlands eystra hefur dæmd íslenska ríkið til að greiða unglingsstúlku 300 þúsund krónur í bætur fyrir ólöglega frelsissviptingu. Stúlkan var handtekin Á Akureyri ásamt þremur karlmönnum í ágúst árið 2008 og var haldið í fangaklefa í 12 stundir yfir nótt.

Stúlkan, sem var 14 ára þegar þetta gerðist, fór í ökuferð með tveimur kunningum sínum, pilti á líku reki og 17 ára pilti. Síðan bættist 27 ára karlmaður í hópinn. Hópurinn fór og lék golf í Eyjafjarðarsveit en þegar hann kom aftur til Akureyrar stöðvaði lögregla hann en bíllinn reyndist vera stolinn.

Allt var fólkið vistað í fangageymslum en karlmennirnir þrír voru grunaðir um fleiri afbrot. Í ljós kom síðan að stúlkan tengdist ekkert afbrotunum en lögreglan sagði, að vistun stúlkunnar í fangaklefa hafi miðast við nauðsynlega rannsókn málsins og hafi henni verið sleppt um leið og lögreglan taldi að málið væri nægjanlega upplýst. 

Dómurinn taldi hins vegar að lögreglu hefði borið að tilkynna barnaverndarnefnd um málavexti og kalla til fulltrúa hennar ef nauðsynlegt var talið að grípa yrði til frekari úrræða gagnvart stúlkunni.  Hefði frelsissvipting hennar verið ólögmæt.

mbl.is