Endurreisnaráætlun í uppnám

Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra og Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra.
Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra og Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra. mbl.is/Ómar

Ríkisstjórnin segir, að endurreisnaráætlun stjórnvalda hafi verið teflt í mikla tvísýnu með ákvörðun forseta Íslands að synja lögum um ríkisábyrgð vegna Icesave-skuldbindinga. Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, segir, að ríkisstjórnin hafi fengið að vita um ákvörðun forsetans á sama tíma og þjóðin öll.

Jóhanna sagði, að óvissa eða uppnám í fjármálalegum samskiptum við önnur ríki geti haft mjög skaðleg áhrif á íslenskt samfélag. Sagði hún að ríkisstjórnin muni nú meta stöðu mála og horfur varðandi þá endurreisnaráætlun, sem hún hafi fylgt með góðum árangri og undirbúa að farið verði í þjóðaratkvæðagreiðslu um Icesave-lögin, sem forsetinn hafnaði.

Fram kom hjá Jóhönnu og Steingrími J. Sigfússyni, fjármálaráðherra, að reynt verði að koma í veg fyrir að sú mynd verði dregin upp af íslensku þjóðinni að hún ætli að hlaupast frá skuldbindingum sínum. Verður tilkynning send frá stjórnvöldum til erlendra fjölmiðla á eftir þar sem fram kemur að það sé eindreginn vilji að Ísland standi við sínar skuldbindingar.

Þingflokkar ríkisstjórnarflokkanna hafa verið boðaðir til fundar klukkan 15 í dag til að fjalla um málið.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert