ESB metur Icesave-málið

Höfuðstöðar ESB í Brussel.
Höfuðstöðar ESB í Brussel. Reuters

Evrópusambandið mun taka mið af því hvernig Ísland hefur haldið á Icesave-málinu þegar lagt verður mat á umsókn Íslands um aðild að sambandinu. Þetta sagði talsmaður framkvæmdastjórnar ESB í morgun.

Framkvæmdastjórnin undirbýr nú skýrslu um það hve langan tíma viðræður við Ísland um aðild muni taka.  Talsmaðurinn sagði, að þar verði að sjálfsögðu tekið tillit til þess hvernig Íslandi gangi að uppfylla aðildarskilyrði.

„Í þessu samhengi verða efnahagsleg mál, líkt og Icesave-málið... skoðuð ofan í kjölin í ljósi þess hvernig Ísland uppfyllir skuldbindingar sínar á Evrópska efnahagssvæðinu," sagði talsmaðurinn.  

Haft var eftir Paul Myners, aðstoðarfjármálaráðherra Bretlands, í blaðinu The Times í dag, að Icesave-málið geti haft áhrif alþjóðlegt samstarf Íslendinga þverskallist Íslendingar við að staðfesta Icesave-samninginn. Íslensk stjórnvöld geri sér fulla gein fyrir því að samstarfi við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn sé stofnað í hættu og sömuleiðis mögulegri aðild að Evrópusambandinu.

„Ég held ekki að við þurfum að vara þá við," hefur blaðið eftir honum. „Íslenska ríkisstjórnin viðurkenndi að staðan væri þessi."  

Talsmaður framkvæmdastjórnar ESB sagði,  að framkvæmdastjórnin voni að viðunandi lausn náist fyrir alla aðila, en bætti við: „Icesave-samkomulagið... er aðallega tvíhliða mál milli Íslands annars vegar og Bretlands og Hollands hins vegar, því það snýst um bætur handa breskum og hollenskum sparifjáreigendum sem áttu fé á Icesave-reikningum.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert