Mikil reiði í stjórnarliðinu vegna ákvörðunar og framkomu forseta

Forseti Íslands synjar Icesave-lögunum staðfestingar.
Forseti Íslands synjar Icesave-lögunum staðfestingar. Jakob Fannar Sigurðsson

Óánægjan vegna ákvörðunar Ólafs Ragnars Grímssonar, forseta Íslands, kom skýrt fram á fundum þingflokka ríkisstjórnarflokkanna sem hófust kl. 15 í gær. Viðbrögðin voru jafnvel tilfinningaþrungin að sögn heimildarmanna vegna náinna pólitískra tengsla margra þingmanna í báðum flokkum frá fyrri tíð við Ólaf Ragnar.

Mörgum í ríkisstjórn og þingflokkunum var líka misboðið að forsetinn greindi ekki forystumönnum ríkisstjórnarinnar frá ákvörðun sinni fyrr en blaðamannafundurinn var hafinn á Bessastöðum kl. 11.

„Það eru gríðarlega skiptar skoðanir,“ sagði stjórnarþingmaður í gærkvöldi um þá stöðu sem upp er komin. „Forsetinn tók bara stjórnina í sínar hendur og í mínum huga er það vantraust á ríkisstjórnina,“ segir annar úr stjórnarliðinu. Viðmælendur segja að mjög hreinskiptnar umræður hafi farið fram á fundum beggja flokkanna. Formenn stjórnarflokkanna lögðu ekki tillögur fyrir þingflokkana og engar ákvarðanir voru teknar. „Við erum í ríkisstjórnarsamstarfi, höfum unnið með ákveðin markmið í huga og ætlum að reyna að halda því áfram,“ sagði samfylkingarmaður eftir fund þeirra. Annar sagði að í raun gæti allt gerst á allra næstu dögum. Formenn stjórnarflokkanna fái þó tóm næstu daga til að meta stöðuna og ræða saman.

Engir kostir hafa verið útilokaðir og málin voru rædd frá öllum hliðum en ekki virðist þó vera áhugi á að fara þá leið að fella lögin úr gildi svo ekki komi til þjóðaratkvæðagreiðslu og reynt verði að ná betri samningum við Breta og Hollendinga. Rætt var talsvert um hvernig standa mætti að þjóðaratkvæðagreiðslunni og er reiknað með að þingflokkar beggja stjórnarflokkanna kæmu aftur saman til fundar í dag.

Skv. heimildum innan Vg er það almennur vilji meðal þingmanna að stjórnin sitji áfram. „En menn vilja taka sér tíma til að skoða þessi mál,“ segir þingmaður. Flestir þingmenn Vg vilji að nú verði hafinn undirbúningur fyrir þjóðaratkvæðagreiðsluna.

Hörð viðbrögð þingmanna og fleiri í Hollandi og Bretlandi og mikil og neikvæð umfjöllun erlendra fjölmiðla í gær virðist hafa komið mörgum á óvart. Stjórnarliðar leggja áherslu á að ráðuneytin leggi kapp á að kynna stöðu málsins erlendis, reyna að lágmarka skaðann, kveða niður misskilning og koma því á framfæri að Íslendingar muni standa við skuldbindingar sínar skv. heimildum.

Ekki var annað að heyra á formönnum þingflokkanna eftir fundina í gær en að stjórnarflokkarnir ætli sér að halda ótrauðir áfram samstarfi sínu.

Sjá nánari umfjöllun um þennan þátt málsins í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert