Uppboð auglýst á 150 eignum

Uppboð hafa verið auglýst á fjölda fasteigna á höfuðborgarsvæðinu.
Uppboð hafa verið auglýst á fjölda fasteigna á höfuðborgarsvæðinu. mbl.is / Rax

Nauðungaruppboð á yfir 150 fasteignum eru auglýst í Morgunblaðinu í dag. Flest eru uppboðin að byrja og fara þá fram á skrifstofum sýslumannsembættanna í næstu viku. Nokkur framhalds uppboð fara þó fram á staðnum.

Flest uppboðin eru auglýst af sýslumanninum í Hafnarfirði, samtals 63, og ná til eigna í Hafnarfirði, Garðabæ og Álftanesi. Meginhlutinn byrjar á skrifstofunni næstkomandi þriðjudag en þau sem fram fara á eignunum sjálfum næstu daga á eftir.

35 uppboð eru auglýst af sýslumanninum í Reykjavík, flest miðvikudaginn 13. janúar.

Sýslumaðurinn í Kópavogi auglýsir 48 uppboð, næstkomandi fimmtudag, 14. janúar.

Þá auglýsir sýslumaður Snæfellinga uppboð á sex fasteignum á fimmtudag.

Þess má geta að ekki eru aðeins fasteignir til sölu því sýslumaðurinn í Reykjavík auglýsir uppboð á þremur óskilahrossum að beiðni umhverfis- og samgöngusviðs Reykjavíkur. Uppboðið fer fram í Stóðhúsinu í Víðdal næstkomandi föstudag.

Þar geta menn meðal annars boðið í 3ja vetra brúnskjóttan graðhest.

mbl.is

Bloggað um fréttina