Ekki sérmál Íslands heldur allrar Evrópu

Eva Joly
Eva Joly

Eva Joly, sem starfar fyrir embætti sérstaks saksóknara, segir að ein af ástæðum þess að hún hefur tekið upp hanskann fyrir Íslands sé að hún er stjórnmálamaður en hún er þingmaður á Evrópuþinginu. Hún segir að það sem er að gerast á Íslandi geti gerst fyrir öll smáríki. Hún segir að þetta sé ekki sérmál Íslands heldur allrar Evrópu.

Egill Helgason er með viðtal við Joly í þættinum Silfri Egils en Joly er stödd í París. 

Hún segir að þeir sem lögðu sparifé sitt inn á hávaxtareikninga íslensku bankanna hafi tekið áhættu og gestaríkin beri einnig ábyrgð á eftirliti með útlöndum bönkum sem starfa í þeirra ríkjum.

Joly sagði í Silfri Egils að Íslendingar ættu stuðning víða og vísaði þar til blaðagreina sem birst hafa að undanförnu í erlendum fjölmiðlum. Eins að almenningur í Hollandi og Bretlandi hafi tekið málstað Íslendinga. Til að mynda hafi 95% þeirra sem bloggað hafa um viðtalið sem birtist við hana í vikunni í NRC Handelsbladt hafi tekið málstað Íslands.

Hún kom inn á hvað sé að gerast á alþjóðlegum fjármálamarkaði og bendir á að bandarískir bankar og fleiri boði gríðarlega bónusa og þeir hafi greinilega ekkert lært af hruninu.

mbl.is