Miklar breytingar á barnalögum í bígerð

Skólabörn sem tengjast ekki efni fréttarinnar
Skólabörn sem tengjast ekki efni fréttarinnar mbl.is/Eggert

Margvíslegar breytingar eru lagðar til í frumvarpi til nýrra barnalaga sem lagt hefur verið fram. Má þar nefna að dómurum verði veitt heimild til þess að ákveða að foreldrar skuli fara sameiginlega með forsjá barns, þótt annað foreldra sé því andvígt, þ.e. ef dómari telur þær aðstæður fyrir hendi að sameiginleg forsjá  geti þjónað hagsmunum barns.

Við mat á því hvort forsjá skuli vera sameiginleg ber dómara m.a. að taka mið af því hvort forsjáin hafi áður verið sameiginleg og aldri og þroska barns. Þá ber sérstaklega að líta til þess hvort ágreiningur eða samskipti foreldra séu líkleg til að koma í veg fyrir, hindra eða draga úr möguleikum barns til að alast upp við þroskavænleg skilyrði.

Nefnd sem skipuð var í desember 2008 til að fara yfir reglur barnalaga um forsjá barna, búsetu og umgengni hefur skilað Rögnu Árnadóttur dómsmála- og mannréttindaráðherra tillögum sínum að breytingum á lögunum með frumvarpi og ítarlegri greinargerð. Nefndina skipuðu Hrefna Friðriksdóttir lögfræðingur, lektor í sifja- og erfðarétti við Háskóla Íslands, sem var formaður hennar, Ingveldur Einarsdóttir héraðsdómari, tilnefnd af Dómarafélagi Íslands, og Álfheiður Steinþórsdóttir sálfræðingur, tilnefnd af Sálfræðingafélagi Íslands.

Margvíslegar breytingar eru lagðar til á gildandi lögum í frumvarpi nefndarinnar sem varða m.a. forsjá stjúp- og sambúðarforeldra, heimildir dómara í forsjármálum, hlutverk foreldra, ráðgjöf og sáttameðferð hjá sýslumönnum og ákvæði um umgengnisrétt.

Ekki lagt til að barn geti átt lögheimili á tveimur stöðum

Lagt er til að dómurum verði veitt heimild til þess að leysa sérstaklega úr ágreiningi foreldra um lögheimili án þess að forsjármál sé rekið samhliða. Ekki er á hinn bóginn lagt til að barn geti átt lögheimili á tveimur stöðum samtímis.

Í frumvarpinu eru hlutverk foreldra afmörkuð nánar miðað við gildandi lög og heimildir hvors um sig gerðar skýrari. M.a. er lagt til að tekin verði af öll tvímæli um að lögheimilisforeldri geti ákveðið búsetu barns innanlands, þ.e. að ekki þurfi samþykki umgengnisforeldris fyrir lögheimilisbreytingu. Á hinn bóginn ber hvoru foreldri að tilkynna hinu með minnst sex vikna fyrirvara ef foreldri hyggst flytja lögheimili sitt og/eða barnsins hvort sem er innanlands eða utan, þ.e. ef annað foreldra á umgengnisrétt við barn samkvæmt samningi, úrskurði, dómi eða dómsátt.

Síðast en ekki síst er rétt að geta þeirrar tillögu nefndarinnar að foreldrum verði gert skylt að leita sátta hjá sáttamanni áður en unnt er að krefjast úrskurðar eða höfða mál um forsjá, lögheimili, umgengni, dagsektir eða aðför. Takist sættir ekki gefur sáttamaður út sáttavottorð sem gildir í sex mánuði. Markmiðið með sáttameðferðinni er að hjálpa foreldrum að gera samning um þá lausn máls sem barni er fyrir bestu.

Samkvæmt gildandi lögum ber sýslumanni að bjóða aðilum forsjár-, umgengnis- og dagsektarmála sérfræðiráðgjöf en foreldrum er ekki skylt að þiggja slíka ráðgjöf. Hér eru því lagðar til veigamiklar breytingar á gildandi löggjöf.


mbl.is

Bloggað um fréttina