Stjórn Straums sýknuð

Vilhjálmur Bjarnason.
Vilhjálmur Bjarnason.

Hæstiréttur hefur staðfest dóm Héraðsdóms Reykjavíkur sem sýknaði fyrrverandi stjórn Straums Burðaráss af kröfu Vilhjálms Bjarnasonar og dætra hans um skaðabætur vegna sölu á hlutabréfum í bankanum árið 2007. Taldi dómurinn ekki að feðginin hefðu getað sýnt fram á að þau hefðu orðið fyrir tjóni.

Vilhjálmur og dætur hans, Hulda Guðný og Kristín Martha, voru hluthafar í Straumi. Þau höfðuðu málið gegn stjórn Straums í október árið 2008 vegna sölu bankans á hlutabréfum til Landsbankans í Lúxemborg, sem var stór hluthafi í bankanum á þeim tíma, á verði sem var undir markaðsverði er viðskiptin áttu sér stað.

Hinn 17. ágúst seldi bankinn 550 milljón hluti í sjálfum sér til Landsbankans í Lúxemborg á genginu 18,6 en meðalgengi bréfa Straums í Kauphöllinni þann daginn var 19,17.

Vilhjálmur og dætur hans töldu að stjórn Straums hefði ekki mátt selja svo stóran hlut undir markaðsverði á þeim degi er kaupin voru gerð. Salan hafi í raun rýrt verðmæti félagsins og hlutabréfa þeirra. Stjórnin hafi átt að geta selt hlutinn að minnsta kosti á meðalgengi dagsins og þannig fengið 313,5 milljónum króna meira í sjóð félagsins.

Björgólfur Thor Björgólfsson kaupsýslumaður var í stjórn Straums og var  því meðal stefndu í málinu, en félög í hans eigu voru stærstu hluthafar Landsbankans.

Hæstiréttur taldi, að Vilhjálmur og dætur hans hefðu ekki sýnt fram á tjón sitt vegna umræddrar sölu og ekki heldur, að umrædd sala hefði verið óþörf. Stjórnendur félaga tækju ákvarðanir um fjárhagslegar ráðstafanir og dómstólar gætu ekki fjallað um hvort þær hefðu verið nauðsynlegar eða ekki. Í málinu gæti því aðeins reynt á hvort með þeim hefði verið brotið ólöglega gegn réttindum annarra.

Þá taldi Hæstiréttur, að feðginin hefðu ekki hafa sýnt fram á að raunhæft hefði verið að fá verulega hærra verð fyrir bréfin en fékkst. Þá hefðu þau ekki sannað að tilboð um kaup á svo miklu hlutafé hefðu verið virk í kauphöllinni á þessum tíma. Því væri ekki sannað að réttindum félagsins hefði verið ráðstafað á óréttmætan hátt.

Einnig var talið að stjórnendum félagsins hefði ekki verið skylt að bjóða hluthöfum að ganga inn í umræddan samning þar sem slíkur áskilnaður væri hvorki í hlutafélagalögum né samþykktum félagsins. Með þessari sölu hefði hluthöfum félagsins því ekki verið mismunað.  

Stjórn Straums var sýknuð í Héraðsdómi Reykjavíkur í mars sl. þar sem Vilhjálmur og dætur hans voru ekki talin hafa sýnt fram á að þau hefðu orðið fyrir tjóni vegna sölunnar. Þar sem fjárkrafa feðginanna var undir lögbundinni áfrýjunarfjárhæð, sem er 300.000 kr., þurfti Hæstiréttur sérstaklega að veita leyfi fyrir áfrýjun málsins.

Vilhjálmur krafðist þess að fyrrverandi stjórn Straums greiddi sér 12.891 krónu í bætur og dætur hans þess að þeim yrðu greiddar 9285 krónur hvorri í bætur.

mbl.is