Fréttaskýring: Ísland bar nafn með rentu á „litlu ísöld“

Hvannadalshnjúkur Dyrhamar í forgrunni.
Hvannadalshnjúkur Dyrhamar í forgrunni. mbl.is/Rax

Vísbendingar eru um að samhengi sé á milli lítillar virkni sólar og kuldaskeiða. Í Morgunblaðinu í gær kom fram að sólvirkni hefði verið með minnsta móti undanfarin ár. Á svonefndri „litlu ísöld“ frá 13. öld og til loka 19. aldar fylgdust að lítil sólvirkni og kuldi. Sólblettir voru nær engir á tímabilinu frá 1645-1715 og höfðu einnig verið í lágmarki frá 1420-1570.

Sólblettir myndast þar sem öflugt segulsvið brýst út úr yfirborði sólarinnar. Sólblettum fylgja miklir segulstormar. Á öldum áður var magn sólbletta eini mælikvarðinn sem menn höfðu á virkni sólarinnar. Eftir að tækninni fleygði fram staðfestu rannsóknir að samband er á milli virkni sólar og umfangs sólbletta.

Hitasveiflur frá landnámi

Trausti Jónsson veðurfræðingur rekur í grein á vef Veðurstofunnar (Um hitafar á Íslandi og á norðurhveli frá landnámi til 1800) hvernig menn hafa reynt að gera sér grein fyrir hitafari í fortíðinni. Ritaðar heimildir gefa til kynna sveiflur í veðurfari hér á landi allt frá því land byggðist. Rannsóknir á borkjörnum úr jöklum og sjávarseti segja líka sögu. Margt bendir til að hlýtt hafi verið á norðurhveli frá því að Ísland byggðist á 9. öld og fram yfir aldamótin 1100. Eftir það var heldur kaldara fram yfir 1400. Svo tók við enn kaldara skeið fram yfir 1900. Síðan hefur aftur hlýnað til muna. Trausti segir frá líkönum sem menn hafa smíðað til að geta sér til um hitastigsbreytingar. Þar hafa margir þættir áhrif og má m.a. nefna breytingar í virkni sólarinnar, efnasamsetningu lofthjúpsins, breytingar á mengun og landnotkun, eldgos auk breytinga á brautarþáttum jarðar og fleira.

Dr. Helgi Björnsson jöklafræðingur bendir á það í nýútkominni bók sinni, Jöklar á Íslandi (Opna 2009), að auk fárra sólbletta hafi upphaf litlu ísaldar verið tengt miklum eldgosum frá 14. öld og til 19. aldar. Í þeim hafi hundruð rúmkílómetra af ösku og rokgjörnum efnum borist upp í háloftin. Þar hafi þau blandast vatnsgufu svo örsmáir dropar sveimuðu árum saman við efstu mörk veðrahvolfsins og endurköstuðu sólargeislunum.

Þekktar eru lýsingar Ara fróða á gróðursældinni þegar landið var „viði vaxið milli fjalls og fjöru“ við landnám. Búseta manna og kólnandi loftslag breyttu því með tilheyrandi gróðureyðingu ug uppblæstri.

Á litlu ísöld gengu sumir skriðjöklar fram um 10-15 km og fóru jafnvel yfir grösugar byggðir. Í Jöklum á Íslandi segir m.a. að land sem nú er að miklu leyti undir Breiðamerkurjökli hafi verið gróið og jafnvel búið þar á nokkrum bæjum áður en jökullinn lagðist yfir. Snælínan á sunnanverðum Vatnajökli fór einnig úr 1.200 m hæð og niður í 700 m á seinni hluta litlu ísaldar.

Aðrar heimildir greina frá því að jafnvel þorskurinn hafi flúið kuldann í norðurhöfum á litlu ísöld. Þorskur hafi varla fundist hér við land árum saman frá ofanverðri 17. öld og að þorskur hafi verið fágætur í N-Atlantshafi á árunum 1600-1830.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.990 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »