Íslendingur fær Michelin stjörnu

Agnar ásamt viðskiptafélaga sínum, vínþjóninum Xavier Rousset
Agnar ásamt viðskiptafélaga sínum, vínþjóninum Xavier Rousset

„Þetta eru frábær, frábær tíðindi," segir matreiðslumeistarinn Agnar Sverrisson, en veitingastaður hans Texture í London hefur nú orðið þess heiðurs aðnjótandi að fá hina víðfrægu Michelin stjörnu, eina æðstu og eftirsóttustu viðurkenningu í veitingahúsabransanum.

Agnar og félagi hans Xavier Rousset opnuðu Texture í júlí 2007 og settu markið hátt frá upphafi. Í samtali við Morgunblaðið stuttu fyrir opnun staðarins sagði Agnar takmarkið einfaldlega að verða bestir, eins og sannir Íslendingar. Nú rúmum tveimur árum síðar hefur það gengið eftir og óhætt að segja að það sé frábær árangur enda ekki hver sem er sem fær stjörnu í bók Michelin.

„Það er ansi erfitt, en við erum búnir að vinna mikið og lengi að þessu og loksins hefur það skilað sér. Maður er bara svo óþolinmóður, stefnan var tekin á þetta frá fyrsta degi og við vorum nú að vonast til að þetta kæmi fyrr en þetta tekur smá tíma og náðist í dag."

Agnar mun vera fyrsti Íslendingurinn sem fær Michelin stjörnu fyrir veitingahús sitt.  Hann segir viðurkenninguna hafa mikið að segja fyrir reksturinn og bjóði upp á mörg tækifæri. „Þetta þýðir allavega 25% aukningu bar einn tveir og þrír í gestum, sem er gríðarlega mikilvægt.“

Nánar í Morgunblaðinu á morgun. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert