Ólafur víttur á borgarstjórnarfundi

Ólafur F. Magnússon.
Ólafur F. Magnússon. mbl.is/Árni Sæberg

Til hvassra orðaskipta kom á milli Vilhjálms Þ. Vilhjálmssonar, forseta borgarstjórnar Reykjavíkur, og Ólafs F. Magnússonar, borgarfulltrúa F-lista þegar Ólafur flutti tillögu um að Hanna Birna Kristjánsdóttir, borgarstjóri, víki úr starfi. Vítti Vilhjálmur Ólaf formlega fyrir málflutning sinn.

Ólafur las upp bókun sem fylgdi tillögunni og lauk henni með frumsömdu kvæði þar sem Hönnu Birnu var fundið allt til foráttu. Vilhjálmur, sem stýrði fundinum, greip þá fram í fyrir Ólafi og sagði að hann gæti ekki farið með níðvísur nema bera ábyrgð á því sjálfur.  Ólafur sagðist gera það og lauk síðan við kvæðið.

Að lokinni ræðu Ólafs sagðist Vilhjálmur ekki sjá sér annað fært en að víta Ólaf formlega fyrir málflutning sinn. Sagði Vilhjálmur m.a. efnisinnihald bókunar Ólafs væri að stórum hluta í andstöðu við samþykktir borgarstjórnar og úrskurðaði hann að bókunin yrði ekki færð í fundargerðarbækur borgarstjórnar.

Dagur B. Eggertsson, borgarfulltrúi Samfylkingarinnar, sagði að tvö efnisatriði í bókun Ólafs þyrftu skoðunar við. Annars vegar ef rétt væri að borgarráð hefðu ekki fengið réttar upplýsingar um  ferðakostnað og hins vegar að allir flokkar nema Sjálfstæðisflokkurinn hefðu gert grein fyrir  þeim fjárstyrkjum sem þeir fengu frá fyrirtækjum á umliðnum árum.

Óskar Bergsson, borgarfulltrúi Framsóknarflokks, lagði fram bókun og frávísunartillögu við tillögu Ólafs. Sagði m.a. í bókuninni, að að væri að verða fastur liður á borgarstjórnarfundum að sitja undir dylgjum og órökstuddum ásökunum Ólafs.  Frávísunartillagan var síðan samþykkt með 8 atkvæðum gegn 1 en 6 sátu hjá. 

Ólafur lagði þá fram bókun þar sem sagði m.a. að það væri aumt að sjá hvernig flokkar gætu kúgað góða einstaklinga til að greiða atkvæði gegn sinni dýpstu sannfæringu. Sagðist hann viss um að margir væru í hjarta sínu sammála tillögu sinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert