Fréttaskýring: Komast undan persónulegri ábyrgð

Reuters
Nýtt ákvæði í skattalögum um skattlagningu arðs gerir það að verkum að margir sjá hag sínum betur borgið í samlagsfélagi eða sameignarfélagi heldur en einkahlutafélagi. Fyrrnefndu rekstrarformin bjóða upp á léttbærari skattlagningu á hagnað fyrirtækja og félaga og við núverandi aðstæður má nánast ganga svo langt að segja einkahlutafélagið ónýtt rekstrarform þegar um er að ræða fáa hluthafa.

Sýslumenn sjá um skráningar á stofnun samlagsfélaga og sameignarfélaga. Þegar í lok síðasta árs mátti greina töluverða aukningu á skráningu slíkra félaga og sama þróun hefur einkennt fyrstu tuttugu daga þessa árs. Mest hefur fjölgunin orðið í Reykjavík.

Nær ekki til Suðurnesja

Hjá sýslumanninum í Reykjavík fengust þær upplýsingar að aðallega hefði orðið sprenging í stofnun samlagsfélaga. Á árinu 2008 voru 45 samlagsfélög stofnuð og 12 sameignarfélög. Á árinu 2009 voru stofnuð samlagsfélög hins vegar 82 en þar af voru 40 félög skráð á síðustu fjórum dögum ársins. Þá voru 20 sameignarfélög stofnuð á síðasta ári.

Það sem af er árinu 2010 hafa 25 ný samlagsfélög verið stofnuð og fimm sameignarfélög. Þróunin er hins vegar ekki jafn skörp hjá öðrum embættum. Í Hafnarfirði voru 33 samlagsfélög eða sameignarfélög stofnuð á síðasta ári. Sex félög hafa verið stofnuð á fyrstu dögum þessa árs en það er rétt tæplega helmingi færri félög en allt árið 2008 þegar fjórtán slík félög voru skráð.

Þessi bylgja virðist þó ekki hafa náð til Suðurnesja eða Kópavogs. Hjá sýslumanninum í Keflavík voru þrjú samlagsfélög eða sameignarfélög stofnuð á árinu 2008, fjögur árið 2009 og eitt samlagsfélag það sem af er ári. Í Kópavogi voru sextán félög skráð 2008, fimmtán á síðasta ári og fimm það sem af er mánuði.

Einkahlutafélag ber ábyrgðina

Eigendur sameignarfélags ábyrgjast allir sem einn, með öllum eigum sínum, skuldir félagsins. Ábyrgðin er bein, óskipt og ótakmörkuð. Í samlagsfélögum ber hins vegar að minnsta kosti einn aðili ótakmarkaða ábyrgð á skuldbindingum félagsins. Aðrir bera takmarkaða ábyrgð miðað við framlagt stofnfé.

Skýringin á því hvers vegna færri hafa stofnað samlagsfélög og sameignarfélög hingað til er hin ótakmarkaða ábyrgð félagsmanna. Menn leysa það í dag með því að stofna einkahlutafélag sem látið er bera hina ótakmörkuðu ábyrgð og eru eigendur þess svo einnig stofnendur í félaginu en bera einungis takmarkaða ábyrgð. Þar sem eigendur einkahlutafélaga bera takmarkaða ábyrgð ber í raun enginn fulla persónulega ábyrgð á skuldbindingum samlagsfélagins.

Allar eignir einkahlutafélagsins standa þó að sjálfsögðu að baki ótakmörkuðu ábyrgðinni og renna upp í skuldir samlagsfélagsins sé það tekið til gjaldþrotaskipta.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert