Nærri 49 þúsund í framhaldsskólum

Alls voru 48.706 nemendur skráðir á framhalds- og háskólastigi og eru fleiri en nokkru sinni fyrr, að sögn Hagstofunnar, sem segir fjölgun nemenda skýrast fyrst og fremst af vexti fjarnáms á háskólastigi en nemendum í fjarnámi á framhaldsskólastigi fækkaði frá fyrra ári í fyrsta skipti. 

Í framhaldsskóla eru skráðir 29.698 nemendur og 19.008 í háskóla. Skráðum nemendum hefur fjölgað um 3% frá fyrra ári sem er lítið eitt meiri fjölgun en árið áður. Fjölgunin er öllu meiri á háskólastigi, eða um 5,5%, á móti 1,5% á framhaldsskólastigi. 

Nemendur grunnskóla, sem jafnframt sækja nám í framhaldsskólum, eru 1090, sem er 4% skráðra nemenda í framhaldsskólum. Grunnskólanemendum í framhaldsskólum hefur fækkað um fjórðung á milli ára. Rúmlega eitt hundrað nemendur á grunnskólaaldri eru á undan jafnöldrum sínum í námi og því skráðir sem fullgildir nemendur í framhaldsskólum. Það jafngildir 2,3% árgangs 15 ára árið 2009.

Konur í meirihluta

Konur eru 56,5% allra skráðra nemenda í framhaldsskólum og háskólum: 52,9% skráðra nemenda í framhaldsskólum og 62,2% skráðra nemenda í háskólum.

Flestir nemendur eru skráðir í bóklegt nám. Á framhaldsskólastigi eru 67,2% nemenda skráðir í almennt nám og á háskólastigi eru 98,1% nemenda skráðir í fræðilegt nám.

Í háskólum eru flestir nemendur skráðir á svið viðskiptafræða, 2896 talsins. Næst fjölmennasta námssviðið í háskólum er lögfræði en þar eru skráðir til náms 1290 nemendur. Í viðskiptagreinum fækkaði nemendum frá síðasta ári um 364 eða um 12,6%. Skráðum nemendum í lögfræði fjölgaði hins vegar um 114, eða um 8,9%. Viðskiptagreinar og lögfræði eru einu námsbrautirnar á háskólastigi þar sem fjöldi nemenda nær einu þúsundi.

Doktorsnemum hefur fjölgað um 31  frá fyrra ári og eru nú 314 í námi á 44 fræðasviðum. Þar af eru 134 karlar og 180 konur. Flestir doktorsnemar leggja stund á nám í uppeldis- og menntunarfræðum eða 47. Næst fjölmennasta námsleiðin er læknisfræði með 35 nemendur og þriðja fjölmennasta námsleið í doktorsnámi er líffræði með 25 doktorsnema.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert