Fréttaaukinn lagður af

Páll Magnússon
Páll Magnússon mbl.is

Meðal þeirra þátta sem lenda undir hnífnum hjá RÚV er fréttaskýringaþátturinn Fréttaaukinn sem var í umsjón Elínar Hirst og Boga Ágústssonar. Auk þess verður þátturinn Viðtalið, í umsjón Boga, aflagður. Útsendingum frá Eddunni, Grímunni og Íslensku tónlistarverðlaununum og fleiri viðburðum verður hætt og stórlega dregið úr kaupum á innlendu sjónvarpsefni, að sögn Páls Magnússonar, útvarpsstjóra. 

Páll sagði að verið væri að endurskoða rekstur svæðisstöðva RÚV og þess vegna hefði verið gripið til uppsagna þar. Áfram yrðu fréttamenn starfandi á þessum stöðum. 

Páll vildi ekki tjá sig um mál einstakra starfsmanna og taldi það ekki við hæfi. Aðspurður sagði hann að stjórnendur sviða innan RÚV hefðu tekið ákvarðanir um hverjum yrði sagt upp en hann tók skýrt fram að það drægi ekki úr ábyrgð hans við þennan niðurskurð. 

Fram kom á starfsmannafundi RÚV sem hófst klukkan 14 að Páll hygðist skila jeppa sem RÚV hefur haft á rekstrarleigu fyrir hann. Páll minnti á að nú tæki stjórn RÚV ekki lengur ákvörðun um laun hans heldur væri hún í höndum kjararáðs og von væri á ákvörðun þess innan tíðar.  Skilin á jeppanum stæðu þó ekki í sambandi við úrskurðinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert