19 styrkir veittir hjá Hlaðvarpanum

Alls voru veittir nítján styrkir úr sjóði Hlaðvarpans á föstudag en alls bárust vel á annað hundrað umsóknir og hafa þær aldrei verið fleiri. Alls var 14 milljónum króna úthlutað að þessu sinni en um þriðju úthlutun úr sjóðnum er að ræða.

„Árið 1985 ákvað hópur kvenna að festa kaup á húsunum við Vesturgötu 3 í Reykjavík. Þau voru þá í nokkurri niðurníðslu og hætta á að þessi glæsilegu hús yrðu rifin. Ákveðið var að stofna hlutafélag kvenna sem keypti húsin og gekk undir nafninu Hlaðvarpinn. Smátt og smátt voru húsin gerð upp og þar blómstraði ýmis konar menningarstarfsemi um árabil. Þar var rekið leikhús, bæði í kjallara og sal, haldinn fjöldi tónleika og funda. Herbergi voru leigð út til félaga og fræðikvenna og þannig mætti áfram telja. Viðgerðir og rekstur voru félaginu þung í skauti og skuldir söfnuðust upp. Þar kom að ákveðið var að hætta rekstrinum og selja húsin. Í samþykktum Hlaðvarpans var kveðið á um að yrði  félagið  lagt niður skyldi andvirði húsanna varið til að styrkja menningarstarfsemi kvenna.

Ákveðið var því að stofna menningarsjóð kvenna og verður nú úthlutað úr sjóðnum þriðja árið í röð. Fjölgun umsókna milli ára sýnir glöggt hve frjó og fjölbreytt menningarstarfsemi kvenna er á Íslandi og að í erfiðu árferði skortir ekki á frumkvæði kvenna," samkvæmt tilkynningu.

 
mbl.is