Skýrslan frestast enn lengur

Tryggvi Gunnarsson og Páll Hreinsson á blaðamannafundi þar sem gerð …
Tryggvi Gunnarsson og Páll Hreinsson á blaðamannafundi þar sem gerð er grein fyrir störfum rannsóknarnefndar Alþingis. mbl.is/Árni Sæberg

Skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis verður ekki birt 1. febrúar eins og stefnt hefur verið að. Aðalástæða þess er sú að nefndin hefur í störfum sínum fundið fleiri atriði sem hún telur sig þurfa að gera grein fyrir.

Þeir Páll Hreinsson og Tryggvi Gunnarsson nefndarmenn lögðu áherslu á að skýrslan yrði ekki fyrir fáa útvalda heldur fengju allir aðgang að henni. Hana eigi að birta um leið og hún verður tilbúin, óháð því hvað annað gerist í samfélaginu. Segja þeir að stefnt sé á að birta hana um þarnæstu mánaðamót, mánaðamótin febrúar-mars, og að stefnt sé að því sérstaklega að ná henni út áður en þjóðaratkvæðagreiðsla fer fram um Icesave-málið.

Eitt af því sem helst mun tefja birtingu skýrslunnar er það að þeir embættismenn, stjórnmálamenn og fólk úr einkageiranum sem fjallað er um í skýrslunni hefur andmælarétt, vegna þeirra niðurstaðna sem rannsóknarnefndin birtir um störf þeirra. Aðspurður segir Tryggvi Gunnarsson að það fólk fái andmælabréf frá nefndinni á næstunni og fái frest til að svara því, en stefnt sé að því að sá frestur verði almennt ekki lengri en tvær vikur, þó hann geti verið mismunandi á milli manna.

Þá þarf að sinna ýmsum lögbundnum verkefnum nefndarinnar áður en hægt er að birta skýrsluna, senda tilkynningar til saksóknara og síðast en ekki síst að ganga frá skýrslunni og búa hana til útgáfu.

Teknar hafa verið formlegar skýrslur af 150 manns og þar að auki verið rætt við um 300 manns. Þeir Tryggvi og Páll segja að nú þegar hafi verið lögð á að giska þrjátíu ársverk í gerð skýrslunnar. Þeir segja að nú stefni skýrslan í það að verða nær 2000 blaðsíður að lengd en áður var giskað á að skýrslan yrði um 1500 síður.

„Frágangur á skrifum um einstaka þætti rannsóknarinnar, og þar með mat á þeim með tilliti til verkefna nefndarinnar, hefur hins vegar reynst tímafrekari heldur en vænst var. Gangi allt eftir ætti þessum þætti í starfi nefndarinnar að vera lokið í þessari viku og þar með fyrir 1. febrúar nk,“  segir í tilkynningu sem blaðamönnum var afhent á blaðamannafundi með þeim Páli og Tryggva í Alþingishúsinu nú á tólfta tímanum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert