Húsleit á 12 stöðum

Starfsmenn embættis sérstaks saksóknara bera gögn inn á skrifstofu embættisins …
Starfsmenn embættis sérstaks saksóknara bera gögn inn á skrifstofu embættisins við Laugarveg að afloknum húsleitum í dag. mbl.is/Árni Sæberg

Embætti sérstaks saksóknara hefur með höndum rannsóknir og réttarbeiðnir sem tengjast Exista en vegna þeirra fóru fram húsleitir í dag á 8 stöðum á Íslandi og 4 stöðum í Englandi. Yfirheyrslur í málinu hófust á sama tíma og standa enn. Þetta kemur fram í tilkynningu frá embætti sérstaks saksóknara.

Þau mál sem eru til meðferðar varða í fyrsta lagi sölu á Bakkavör frá Exista samstæðunni á haustmánuðum 2008 þrátt fyrir ákvæði í lánasamningum um bann við sölu eigna undan samstæðunni án samþykkis kröfuhafa.

Í öðru lagi er til rannsóknar niðurfelling persónulegra ábyrgða á lánum sem veitt voru við kaup starfsmanna á hlutabréfum í félaginu.

Í þriðja lagi er til rannsóknar yfirfærsla skuldar og hlutabréfa í félag í eigu annars af tveimur forstjórum félagsins.

Í fjórða lagi er til rannsóknar tilkynning um hlutafjáraukningu í félaginu Exista um 50 milljarða og loks í fimmta lagi er til meðferðar réttarbeiðni frá erlendu ríki til öflunar gagna vegna rannsóknar erlendis.

Húsleitir hér á landi fóru fram að undangengnum úrskurðum Héraðsdóms Reykjavíkur.
 
„Til rannsóknar eru ætluð brot gegn auðgunarbrotakafla almennra hegningarlaga, brot á hlutafélagalögum, ákvæði hegningarlaga um ranga upplýsingagjöf til stjórnvalds og  eftir atvikum öðrum ákvæðum almennra  hegningarlaga og sérrefsilaga í tengslum við ofangreind sakarefni.  Umrædd mál varða verulega fjárhagslega hagsmuni og rannsóknin tengist fjölda einstaklinga og fyrirtækja," að því er segir í tilkynningu.

Aðgerðirnar í dag voru víðtækar og hófust með leit samtímis í hér á landi og á Englandi en aðgerðir hófust kl. 9:00  með leit á nokkrum stöðum. Alls tóku 30 manns þátt í aðgerðum hér á landi en í Bretlandi tóku 4 starfsmenn embættisins þátt í aðgerðum ásamt breskum lögreglumönnum  og starfsmönnum SFO.
 
Við aðgerðirnar hér á landi naut embætti sérstaks saksóknara aðstoðar efnahagsbrotadeildar ríkislögreglustjórans auk tæknimanna frá embætti lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu.
 
Frekari upplýsingar er ekki hægt að veita um rannsókn málsins að svo stöddu," segir í tilkynningu.

Bræðurnir Ágúst og Lýður Guðmundssynir eru aðaleigendur þeirra félaga sem …
Bræðurnir Ágúst og Lýður Guðmundssynir eru aðaleigendur þeirra félaga sem eru til rannsóknar mbl.is/Heiðar Kristjánsson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert