Ísbjörninn stoppaður upp

Björninn var felldur um miðjan dag í dag.
Björninn var felldur um miðjan dag í dag. mbl.is/Líney

Náttúrufræðistofnun Íslands mun taka við og rannsaka hræ ísbjarnarins sem var skotinn skammt frá Þistilfirði síðdegis í dag. Þorvaldur Björnsson, starfsmaður NÍ, segir að dýrið verði að öllum líkindum stoppað upp.

Þorvaldur á eftir að skoða dýrið sjálfur, en hann segir að ekki sé um fullvaxta dýr að ræða. „Dýrið verður að öllum líkindum stoppað upp eins og hin dýrin,“ segir Þorvaldur í samtali við mbl.is, og vísar til ísbjarnanna tveggja, sem voru skotnir á Norðurlandi árið 2008. 

Málið er nú á forræði Náttúrufræðistofnunar Íslands. Dýrið verður rannsakað og sýni tekin. Auk þess verður innýfli ísbjarnarins tekin og beinin varðveitt.

„Þetta eru dýr sem eru búin að synda í margar vikur,“ segir Þorvaldur og bendir á að hafís hafi verið langt frá landi. Dýrin séu því oft illa útleikin eftir volkið í hafinu.

Yfir 500 hvítabirnir á Íslandi

 Rúmlega 500 hvítabirnir að minnsta kosti hafa sést hér við land frá upphafi Íslandsbyggðar. Fram kemur á vef Náttúrufræðistofnunar, að elsta heimildin sé frá um 890 þegar Ingimundur gamli, landnámsmaður í Vatnsdal, sá birnu með tvo húna og að sögn varð þá til örnefnið Húnavatn í Þingi í Austur-Húnavatnssýslu.

Sum ár hafa komið hingað tugir hvítabjarna. Árið 1274 er t.d. getið um 22 dýr og 27 árið eftir. Á síðustu öld er vitað um a.m.k. 71 dýr í 59 tilvikum. Um þriðjungur þeirra, eða 27 dýr, sást hafísveturinn 1917—18.

Talið er að hvítabirnir í heiminum séu 20—25 þúsund, flestir í N-Kanada. Þeir eru á alþjóðlegum válista  og bannað er að drepa þá nema í sjálfsvörn. Frumbyggjar hafa þó veiðikvóta.

Á þessu korti, sem er fengið af vef Náttúrufræðistofnunar Íslands, …
Á þessu korti, sem er fengið af vef Náttúrufræðistofnunar Íslands, sést hvar hvítabirnir hafa sést á Íslandi.
mbl.is