Borgin veitir menningarstyrki

Stórsveit Reykjavíkur.
Stórsveit Reykjavíkur.

Menningar- og ferðamálaráð Reykjavíkur úthlutaði í dag styrkjum til menningarmála, samtals 62 milljónum króna sem deilast á  91 umsækjanda. Ráðið byggir ákvörðun sína á niðurstöðu fagnefndar sem tilnefnd var af Bandalagi íslenskra listamanna.

Alls bárust 177 styrkumsóknir vegna ársins 2010 og var samtals sótt um tæpar 275 milljónir. Samkvæmt upplýsingum frá Reykjavíkurborg hafa undanfarinn áratug jafnframt verið gerðir samstarfssamningar til fleiri ára í senn. Í ljósi fjárhagsástandsins voru þeir hins vegar ekki gerðir nema til eins árs fyrir árið 2009 og ákveðið var að stofna ekki til nýrra langtímasamninga fyrir árið 2010 heldur veita styrki í staðinn. 

Þrátt fyrir hagræðingu var því óvenju mikið til úthlutunar í ár eða 62 milljónir. Tónlistarhópurinn Stórsveit Reykjavíkur sem sótti um styrk til tónleikaraðar árið 2010 var valinn Tónlistarhópur Reykjavíkur 2010 og hlýtur 2 milljóna styrk. Stórsveitin mun flytja nýja og gamla tónlist með innlendum og erlendum gestum í fremstu röð. 

Hæsta styrkinn, 4,5 milljónir króna, hlaut Nýlistasafnið, sem er að flytja inn í stærra og ódýrara húsnæði að Skúlagötu 28. 

Næst hæsta styrkinn 2,3 milljónir króna hlaut Möguleikhúsið sem hefur starfað samfellt frá árinu 1990 og lengi verið eina barnaleikhúsið í höfuðborginni.

2 milljóna króna styrk hlutu Íslenski dansflokkurinn vegna menningarviðburðarins Keðja Reykjavík, Leikhópurinn Vesturport, Caput- hópurinn, Kammersveit Reykjavíkur, Nýsköpunarsjóður tónlistar – Musica Nova og Listasafn Sigurjóns Ólafssonar.

Menningar- og ferðamálaráð skipa: Áslaug Friðriksdóttir formaður , Sif Sigfúsdóttir, Jakob Hrafnsson, Brynjar Fransson, Guðrún Erla Geirsdóttir, Dofri Hermannsson og Hermann Valsson.

mbl.is

Bloggað um fréttina