Dómstólaleiðin varhugaverð

Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra sagði að loknum ríkisstjórnarfundi í morgun vænta þess að brátt komi fram upplýsingar sem skýri í hversu slæmri samningsstöðu íslensk stjórnvöld hafi verið í Icesave-málinu.

Þær gætu einnig varpað ljósi á hversu varhugavert það gæti verið fyrir Ísland sjálft ef málið færi fyrir dómstóla. Svaraði hann játandi um það að þar vísaði hann m.a. til skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis.

Hann gat ekki sagt um það hvort nýjar samningaviðræður milli Íslands, Bretlands og Hollands hæfust á næstunni. Nýjar viðræður yrðu að byggja á því að stjórn og stjórnarandstaða á Íslandi nái saman um hugmyndir að nýrri lausn enda væri ljóst að viðsemjendur okkar hefðu ekki áhuga á að leggja upp í „enn einn óvissuleiðangurinn“.

Kæmi til nýrra viðræðna telur Steingrímur að þær ættu að geta tekið tiltölulegan skamman tíma. Þó verði óhikað haldið áfram með undirbúning þjóðaratkvæðagreiðslunnar um Icesave-lögin frá í desember.


mbl.is