Gegn hagsmunum Íslands

Ögmundur Jónasson.
Ögmundur Jónasson. mbl.is/Kristinn

„Það hlýtur að vera sérlega kærkomið fyrir Breta og Hollendinga að fá svona innlegg í umræðuna. Þetta er hins vegar ekki til að hrópa húrra fyrir hvað okkur snertir," segir Ögmundur Jónasson, þingmaður VG, aðspurður um álitsgrein Þórólfs Matthíassonar prófessors í Aftenposten um Icesave-málið.

Ögmundur telur að Þórólfur, sem hélt því fram að Icesave-byrðin hefði verið blásin út á Íslandi og víðar, sé á villigötum í skrifum sínum.

„Þetta er ekki ábyrgt tal og stríðir gegn hagsmunum okkar sem samfélags. Þetta eru alvörupeningar og alvöruvelferð sem við þurfum að skera niður," segir Ögmundur og vísar til þáttar þingmanna í málinu.

„Við rísum ekki undir þeirri ábyrgð sem við tökumst á hendur sem alþingismenn ef við gerum ekki allt sem í okkar valdi stendur til þess að minnka þennan bagga. Þegar okkur er að berast liðsauki erlendis frá, er það þá snjall leikur að slá á slíkar hendur? Það finnst mér ekki. Ég bara spyr, hvað vakir fyrir mönnum að vera með svona tal?"

Gluggi sem ber að nýta

– Hvað finnst þér um þær raddir sem heyrast, t.d. frá Noregi, þar sem tekið er undir þau sjónarmið að það beri að freista þess að ná fram betri kjörum í samningunum?

„Ég fagna öllum þeim sem rétta Íslendingum hjálparhönd og vilja stuðla að því að við fáum betri niðurstöðu í þessu máli en liggur á borðinu núna […]. Það er ekki nokkur vafi á að það eru að opnast gluggar í þessu máli og við eigum að gera allt sem við getum til að opna þá betur. Mér finnst gleðilegt hvernig tónninn er að breytast á Norðurlöndum."

Hluti af stærra máli

Ögmundur telur málið annað og meira en milliríkjadeilu.

„Menn verða að átta sig á því að þessi slagur er ekki einvörðungu milliríkjadeila heldur eru þetta líka átök fjármagns annars vegar og fólks hins vegar.“

Að mati Ögmundar snýst málið þannig ekki aðeins um réttindi innistæðueigenda heldur einnig um „mannréttindi öryrkjans“ og „þeirra sem þurfa á velferðarþjónustunni að halda“.

„Þegar það þarf að forgangsraða getur blönk þjóð þurft að velja þarna á milli. Þannig að átökin eru félagspólitísk í þessum skilningi líka. Ætlum við alltaf að stilla okkur upp með fjármagninu eða eru fyrir hendi önnur réttindi sem ber einnig að hyggja að,“ segir Ögmundur Jónasson þingmaður.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert