Segir frumvarpið ógna stöðugleikanum

Frá Alþingi.
Frá Alþingi. mbl.is/Heiðar Kristjánsson

Einar K. Guðfinnsson, þingmaður Sjálfstæðisflokks, sagði ljóst að með lagafrumvarpi um breytingu á stjórn fiskveiða væri verið að stíga skref afturábak, draga úr hagkvæmni, hverfa frá ýmsum úrræðum sem gerðu fyrirtækjum í sjávarútvegi kleift að bregðast við sveiflum í heildarafla, feta slóðina inn á fyrningarleið og gera breytingar á vel heppnaðri línuívilnun sem komi til með að raska stöðu beitningavélabáta og enn fremur feli frumvarpið í sér breytingar á framsali sem munu setja ýmsar einyrkjaútgerðir í uppnám.

„Síðast en ekki síst er þetta frumvarp rof á þeim griðum sem ríkisstjórnin lofaði að ríkja mundu um sjávarútveginn á meðan tóm gæfist til að fara ofan í helstu álitamálin í sjávarútvegsstefnunni,“ sagði Einar og benti á að flest hagsmunasamtök hafi hvatt til þess að frumvarpið verði dregið til baka.

Einar sagði frumvarpið afar mótsagnakennt. „Í öðru orðinu er sagt að brýnt sé að draga úr framsali aflaheimilda og gengur hluti frumvarpsins út á það. Í hinu orðinu er kveðið á um mikilvægi þess að stuðla að auknum leigukvóta og ganga breytingar frumvarpsins í þá átt.“

Sagði hann varhugavert að hækka prósentuna þegar komi að línuívilnun. Tók hann fram að það væri mat manna að það að hækka prósentuna muni stuðla að því að útgerðarmenn grípi til þess ráðs að taka vélarnar úr bátum sínum og þar með er í raun steinn lagður í götu framþróunar í sjávarútvegi.

Að mati Einars birtist í frumvarpinu mikil forræðishyggja þar sem leitað er heimildar til handa sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra til þess að stýra vinnslu á uppsjávarfiski. „Hingað til hefur ekki verið talin ástæða til þess að stjórn á vinnsluþáttum einstakra fisktegunda fari fram í ráðuneytinu, heldur séu þær ákvarðanir í höndum útgerða og fiskvinnslu,“ sagði Einar.

Fram kom í máli Einars að það atriði frumvarpsins sem veki hvað mesta athygli sé ákvæðið um skötuselinn. „Þetta ákvæði gerir ráð fyrir að aflaheimildir í skötusel verði auknar um 80% umfram ráðleggingar Hafrannsóknarstofnunarinnar. Er þetta að sjálfsögðu gert þvert á ráðleggingar vísindamanna og þeirra sem hafa reynt að vinna okkur sess á alþjóðavettvangi sem ábyrgri auðlindanýtingarþjóð. Í ákvæðinu er einnig með beinum hætti verið að feta leið inn á braut fyrningar.“

Einar gerði því næst að umtalsefni ákvæði frumvarpsins sem gerir ráð fyrir mikilli aukningu á veiðiskyldu sem sé umdeilt mál. Sagði hann sérstaka ástæðu til þess að vara alvarlega við áformum sem fram koma í frumvarpinu um að draga úr geymslurétti á fiskveiðiheimildum á milli fiskveiðiára. „Þetta ákvæði er gríðarlega þýðingarmikið til þess að stuðla að skynsamlegri sókn, það dregur úr sóknartengdum kostnaði, gefur markaðslegan sveigjanleika og jafnar sveiflur á afla.“



mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert