Óvissu um framtíð Haga eytt

Jóhannes Jónsson, stjórnarformaður Haga, segir að óvissu um framtíð Haga hafi verið eytt með þeirri ákvörðun Arion banka, að óska eftir skráningu fyrirtækisins í íslensku Kauphöllina og setja það þar með í söluferli.

„Það er einlæg von mín, að nú skapist vinnufriður í kringum Haga, svo starfsmenn geti einbeitt sér að því sem þeir gera best, að reka fyrirtækið og þjóna viðskiptavinum sínum. Tækifærin eru fjölmörg og spennandi tímar framundan. Nú sitja allir við sama borð og söluferlið eins opið og gegnsætt og hægt er," er haft eftir Jóhannesi í tilkynningu frá Högum.  

Stefnt er að því að skráningu ljúki fyrir lok ársins 2010. Jóhannes Jónsson og starfsmenn Haga munu vinna með bankanum að skráningu félagsins. Jóhannes verður áfram starfandi stjórnarformaður félagsins og Finnur Árnason forstjóri.

Í skráningunni felst að almenningur og fagfjárfestar munu geta keypt hluti í félaginu. Starfsfólki Haga býðst að kaupa 15% hlut, þar af Jóhannesi allt að 10% hlut á sama gengi og öðrum fjárfestum. 

Í tilkynningu Haga segir, að það sem mestu máli skipti fyrir Haga sé að nú fari af stað gegnsætt ferli sem muni skapa ró um félagið. Margir fjárfestar, bæði innlendir og erlendir, hafi sýnt áhuga á félaginu, enda sé hér um að ræða eitt öflugasta verslunarfyrirtæki landsins.  Stjórnendur Haga vonist til að skráning félagsins verði til þess að auka áhuga á íslensku Kauphöllinni og ekki síður íslensku atvinnulífi.

„Rekstur Haga hefur gengið vel á erfiðum tímum, félagið hefur staðið við allar sínar skuldbindingar og er eitt af fáum félögum sem hefur greitt upp skuldabréfaflokk, skráðan í Kauphöll Íslands frá bankahruni. Staða félagsins er því sterk á þessum tímamótum. Sérvöruhlið félagsins er að vaxa og styrkjast og vörumerkjasafn félagsins er glæsilegt," segir í tilkynningunni. 

Undir Haga fellur Bónus, Hagkaup, 10-11, Útilíf, Zara, Debenhams, Topshop, Coast, Evans, Dorothy Perkins, Oasis, Karen Millen, All Saints, Day og Warehouse. Jafnframt eiga Hagar innkaupafyrirtækin Aðföng, Hýsingu, Banana og Ferskar kjötvörur. 
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert