Fréttaskýring: Hver sem vill má veita fjármálaráðgjöf

Bæjarstjórn Álftaness byggði ákvörðun um samning um leigu á íþróttahúsi …
Bæjarstjórn Álftaness byggði ákvörðun um samning um leigu á íþróttahúsi og sundlaug meðal annars á skýrslu frá ráðgjafarfyrirtækinu ParX. mbl.is/Heiðar

Ábyrgð ráðgjafa og sérfræðinga á því hvernig fyrir fjárhag margra heimila er komið er vissulega mikil. Nóbelsverðlaunahafinn Joseph Stiglitz benti t.d. á það í fyrirlestri í Háskóla Íslands sl. haust, að þótt einstaklingar beri vissulega ábyrgð á slæmum ákvörðunum sínum, sé ekki hægt að líta framhjá því að á undanförnum árum tóku margir rangar ákvarðanir um fjármál sín á grundvelli ráðgjafar frá einstaklingum sem í ljósi sérfræðiþekkingar sinnar hefði átt að vera hægt að treysta.

Lúta ekki opinberu eftirliti

Eins og reglum er háttað hér á landi getur í raun hver sem vill boðið vissar tegundir fjármálaráðgjafar, án leyfis frá opinberum aðilum og án þess að lúta opinberu eftirliti.

Samkvæmt upplýsingum frá Árnýju Guðmundsdóttur, lögfræðingi hjá Fjármálaeftirlitinu (FME), þurfa þeir, sem veita ráðgjöf bæði um lántökur og innlán, ekki sérstakt leyfi. Né eru þeir undir eftirliti FME ef þeir starfa sjálfstætt en ekki innan fjármálafyrirtækja. Hið sama gildi um þá sem veita fyrirtækjaráðgjöf.

Á hinn bóginn þurfa þeir starfsleyfi og lúta eftirliti FME sem veita ráðgjöf um fjárfestingar í fjármálagerningum á borð við hlutabréf og skuldabréf.

Gylfi Magnússon, efnahags- og viðskiptaráðherra, segir það hafa verið til „lauslegrar skoðunar“ hjá ráðuneytinu hvort eðlilegt sé að herða eftirlit með fjármálaráðgjöfum og auka formlegar kröfur til þeirra. Meðal þess sem hafi verið rætt sé hvort koma eigi á fót opinberu vottunarkerfi, þannig að hver sem vildi veita fjármálarágjöf, hvort sem er innan fjármálafyrirtækis eða sjálfstætt, þyrfti t.d. að sýna fram á að hafa staðist tiltekið próf.

Þó segir Gylfi að einnig geti verið heppilegt að hvetja til kerfis þar sem einkaaðilar bjóði vottun sem þeir sem vilja bjóða umrædda þjónustu geti sóst eftir. Slíkt kerfi sé til að mynda við lýði í Bandaríkjunum.

Hann segir engar ákvarðanir hafi verið teknar í þessum efnum. Í ljósi sögunnar sé þó vissulega ástæða til að skoða hvort herða þurfi reglur og eftirlit með umræddum aðilum.

Ekki víst að reglur hefðu dugað

Þær raddir hafa verið háværar að undanförnu sem kvarta undan ráðgjöfum, bæði sjálfstæðum og innan banka, sem þegar gengi krónunnar var sem hæst mæltu eindregið með lánum í erlendri mynt. Þá er vel þekkt að starfsfólk bankanna ráðlagði margt einstaklingum alveg fram að hruni að leggja fé inn í peningamarkaðssjóði og það reyndust mörgum vægast sagt slæm ráð.

Óttar Guðjónsson, framkvæmdastjóri Lánasjóðs sveitarfélaga, bendir þó á að ekki sé víst að meira eftirlit og strangari reglur hefðu komið í veg fyrir að ráðgjafar veittu ráð sem eftir á að hyggja reyndust óheppileg. Enginn hafi t.d. séð fyrir það mikla hrun sem varð á gengi krónunnar. Breytt regluverk hefði væntanlega ekki komið í veg fyrir að ráð, sem á sínum tíma virtust skynsamleg, væru gefin.

Sveitarfélag í vanda

Sveitarfélög hafa ekki farið varhluta af tilboðum ýmissa sérfræðinga um fjármálaráðgjöf. „Í uppsveiflunni reyndu alls konar ráðgjafar að selja manni þjónustu sína,“ segir Halldór Halldórsson, bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar.

Þótt Ísafjarðarbær hafi ekki keypt slíka þjónustu er vitað að fjölmörg sveitarfélög gerðu það. Þannig vísaði t.d. bæjarstjórn Álftaness í skýrslu frá ParX þegar gerður var samningur við eignarhaldsfélagið Fasteign um leigu á sundlaug og íþróttahúsi. Í skýrslunni segir að sveitarfélagið geti, samkvæmt útreikningum á skuldaþoli, staðið undir leigugreiðslunum. Eins og kunnugt er var umræddur samningur meðal þess sem kom sveitarfélaginu í vanda.

Hjá FME fengust þær upplýsingar að ParX sé ekki á lista yfir leyfisskylda aðila.

Framkvæmdastjóri ParX segist ekki geta tjáð sig um skýrsluna. Hafa verður í huga að skýrslan var byggð á forsendum frá bæjarstjórn, sem ekki er víst að hafi verið raunhæfar.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 2.090 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »