„Stendur fyrir sínum skrifum“

Steingrímur J. Sigfússon.
Steingrímur J. Sigfússon. mbl.is/Skapti

Indriði stendur fyrir sínum skrifum og hefur fullt leyfi til þess að svara fyrir sig þegar hann telur tilefni til,“ segir Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra, um grein Indriða H. Þorlákssonar aðstoðarmanns Steingríms í Fréttablaðinu í dag. Hann telur tímasetninguna ekki hafa áhrif á stöðu Icesave-málsins í dag.

Steingrímur bendir á að Kristrún Heimisdóttir, sem var aðstoðarmaður Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur fyrrverandi utanríkisráðherra, hafi hafið upp umræðuna og dregnar hafi verið upp, að mati þeirra sem gjörþekki sögu Icesave-málsins, rangar ályktanir um stöðu málsins í nóvember og desember árið 2008. „Þá sé ég ekkert að því að menn komi upplýsingum á framfæri og geri þessi gögn aðgengileg. Þetta eru gögn sem eru hluti af sögu málsins en hafa engin áhrif á stöðu þess í dag. Eða eiga ekki að gera það.“

Drög að lánasamningum vegna Icesave-málsins við Hollendinga og Breta frá því í desember 2008 voru birt á vefsvæðinu island.is í dag. Þau hafa ekki verið birt áður. Steingrímur segir drögin hafa komið til í tíð fyrri ríkisstjórnar og því á hennar ábyrgð. „Svo er það þannig, að þessi gögn virðast að hluta til ekki hafa verið bókuð hér með sama hætti og hvert einasta snifsi eftir að við tókum við forræði málsins. Af þeim ástæðum var þetta ekki gert aðgengilegt með sama hætti og önnur gögn.“

Af þessum sökum er líklegt að fleiri gögn sem varpa ljósi á forsögu málsins liggi enn hirslum ráðuneyta óbirt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert