Gósenland upplýsingafrelsis

Alþingishúsið
Alþingishúsið Árvakur/Golli

Tillaga til þingsályktunar um að Ísland skapi sér afgerandi lagalega sérstöðu varðandi verndun tjáningar- og upplýsingafrelsis verður lögð fram á þriðjudaginn kemur. Þetta kemur fram á heimasíðu Icelandic Modern Media Initiative.

Markmiðið er að fela ríkisstjórninni að leita leiða til að styrkja tjáningarfrelsi, málfrelsi, upplýsingamiðlun og útgáfufrelsi hérlendis auk þess sem vernd heimildarmanna og uppljóstrara verði tryggð.

„Til þess að það geti orðið að veruleika þarf að undirbúa nauðsynlegar lagabreytingar eða nýja löggjöf, sem byggð væri á bestu mögulegu löggjöf annarra þjóða sem við gjarnan berum okkur saman við til að skapa Íslandi sérstöðu á sviði tjáningar- og upplýsingafrelsis.

Þá finnst okkur vera kominn tími á að komið verði á fót fyrstu alþjóðaverðlaununum sem kennd yrðu við Ísland: Íslensku tjáningarfrelsisverðlaununum,“ segir í kynningu. Fram kemur að Eva Joly hafi lýst yfir stuðningi við þingsályktunartillöguna.

Á síðunni kemur fram að annar talsmanna vinnuhóps sé Birgitta Jónsdóttir alþingismaður. Auk þess geti fjölmiðlar haft samband við alþingismennina Róbert Marshall, Lilju Mósesdóttur eða Þór Saari. 

Meðal annarra tengiliða eru Julian Assange, ritstjóri WikiLeaks síðunnar sem m.a. birti lánabók Kaupþings á sínum tíma.

Drög að þingsályktunartillögunni

mbl.is

Bloggað um fréttina