Niðurskurði mómælt nyrðra

Fjölmenni var við mótmælin á Sauðárkróki í dag.
Fjölmenni var við mótmælin á Sauðárkróki í dag. Ljósmynd/feykir.is

Á sjötta hundrað manns mættu til fundar við Heilbrigðisstofnunina á Sauðárkróki í dag  þar sem mótmælt var gríðarlegum niðurskurði á framlögum ríkisins til stofnunarinnar. Það voru Hollvinasamtök Heilbrigðisstofnunarinnar, sem boðuðu til fundarins, en einnig buðu þau heilbrigðisráðherra Álfheiði Ingadóttur svo og öllum þingmönnum kjördæmisins, og voru ráðherra afhentir undirskriftalistar með nöfnum á annað þúsund Skagfirðinga sem mótmæltu aðför ríkisins að einni grunnstoð búsetuöryggis í héraði.

Fundarstjórar voru Róbert Óttarsson og Pétur Ingi Björnsson. Stutt ávörp fluttu Kristín Halla Bergsdóttir, Sigríður Þorgrímsdóttir og Helga Sigurbjörnsdóttir, en í máli þeirra komu fram mótmæli við lokun fæðingardeildar á Sauðárkróki, uppsagnir lækna og hjúkrunarfræðinga auk verulegs niðurskurðar og samdráttar í allri þjónustu á svæðinu.

Þá var ráðamönnum bent á að þrátt fyrir að þensla góðæristímans hefði ekki náð til þessa svæðis, sem raunar lengstum hefði verið eitt helsta láglaunasvæði landsins og í litlu notið velmegunar góðæristímabilsins væru íbúarnir þó fúsir til þess að taka á sig nokkrar byrðar, en þó ekki umfram það sem aðrir gerðu. En heilsustofnunum á Blönduósi og Sauðárkróki er gert að skera niður rúmlega tvöfaldan meðalsparnað í heilbrigðiskerfinu.

Heilbrigðisráðherra Álfheiður Ingadóttir tók til máls og þakkaði fyrir að vera boðið til þessa fundar og gerði grein fyrir hvers vegna Heilbrigðisstofnunin á Sauðárkróki fengi svo harðan niðurskurð og vitnaði þar í reiknilíkan sem segir á hér sé um að ræða ónýtt hjúkrunarrými, sem séu meðal annars orsök þessarar niðurstöðu, þrátt fyrir að forsvarsmenn stofnunarinnar hafi sýnt fram á að slíkir útreikningar fái ekki staðist. Þá viðurkenndi ráðherra að hér væri um mjög vel rekna stofnun að ræða sem hefði meðal annars náð að vera um 35 milljónum undir kostnaðaráætlun og mundu þeir fjármunir vel nýtast til að koma til móts við það sem spara þyrfti. Þá sagðist hún ekki vera komin til að breyta fjárlögum, en benti á að engin ákvörðun sé þannig að ekki megi endurskoða hana og ráðherrar sem og aðrir yrðu að vera menn til að breyta hlutunum ef sýnt væri að rangar ákvarðanir hefðu verið teknar.

Ásbjörn Óttarsson, fyrsti þingmaður Norðvestukjördæmis tók þá til mála og þakkaði einnig fyrir boð til fundarins, sagðist hann hér mæla fyrir hönd allara þingmannanna sem, sameinaðir sem einn maður, enda þetta mál yfir allar flokkslínur hafið, vildu standa vörð um heilbrigðisstofnanirnar í kjördæminu, og sérstaklega nefndi hann Sauðárkrók, Blönduós og Patreksfjörð, sem hefðu skorið sig úr varðandi niðurskurðarkröfur ríkisvaldsins.

Sagði Ásbjörn að hér væri ekki verið að víkjast undan þáttöku í þeim aðhaldsaðgerðum sem þörf væri á í samfélaginu, heldur aðeins að fara fram á sanngirni og réttlæti, enda um að ræða eina öflugustu grunnstoð búsetu sem verið væri að veikja svo, ef fram færi sem horfði að ekki yrði við unað. Þakkaði hann ráðherra fyrir að hafa nú þegar í næstu viku boðað til fundar með þingmönnum kjördæmisins og hét hann kjósendum því að allir þingmennirnir mundu standa sem einn maður vörð um hagsmuni Heilbrigðisstofnunar Sauðárkróks.

Frá mótmælunum á Sauðárkróki í dag.
Frá mótmælunum á Sauðárkróki í dag. Ljósmynd/feykir.is
Heilbrigðisstofnunin á Sauðárkróki
Heilbrigðisstofnunin á Sauðárkróki mbl.is/Björn Björnsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert