Gengislánin dæmd óheimil

Óheimilt er að binda skuldbindingar í íslenskum krónum við gengi erlendra gjaldmiðla. Þetta er kjarni niðurstöðu dóms Héraðsdóms Reykjavíkur, sem í gær sýknaði mann á Akureyri af kröfum Lýsingar hf. vegna eftirstöðva af bílaláni.

Málavextir eru að vegna bílakaupa var slegið lán í íslenskum krónum sem bundið var dagsgengi erlendra mynta. Það segir héraðsdómur óheimilt og vísar til laga um vexti og verðtryggingu.

„Kröfusafn fjármögnunarfyrirtækja hlýtur að vera í uppnámi með þessum dómi. Mér sýnist líka í fljótu bragði að fyrir hönd skjólstæðings míns megi gera kröfu um endurgreiðslu verðbóta sem þegar hafa verið innheimtar,“ segir Ólafur Rúnar Ólafsson hdl. hjá Pacta lögumönnum, en hann var verjandi þess stefnda í málinu. Lögmaðurinn undirstrikar að sú niðurstaða sem nú er fenginn sé héraðsdómur - en þyngd málsins sé slík að gagnaðili hljóti að skoða áfrýjun.

mbl.is

Bloggað um fréttina