Hópfaðmlög í Mosfellsbæ

Ungir sem aldnir Mosfellsbúar föðmuðust í dag í upphafi Kærleiksviku …
Ungir sem aldnir Mosfellsbúar föðmuðust í dag í upphafi Kærleiksviku og reyndu að slá heimsmet. mbl.is/Heiðar Kristjánsson

Kærleiksvikan í Mosfellsbæ hófst í dag með því að bæjarbúar söfnuðust saman á Miðbæjartorginu til að setja nýtt heimsmet í hópknúsi, að viðstöddum fulltrúum frá Guinnes heimsmetabókinni. Tilraunin tókst þó ekki að þessu sinni, en Íslandsmet var slegið með þátttöku um 370 íbúa. Verður aftur reynt við heimsmetið að ári. Að athöfn lokinni var Kærleikslagið 2010 frumflutt.

Þetta er í fyrsta sinn sem Mosfellsbúar standa fyrir þessi viku, þar sem kærleikurinn verður ofar öllu. Markmiðið er að hver einasti bæjarbúi finni fyrir kærleik í sinn garð og gefi af sér kærleik.  Þetta gæti falist í hrósi, faðmi, brosi, fallegum skilaboðum eða einhverju öðru uppbyggilegu og skemmtilegu, eins og segir á vef Mosfellsbæjar.

Höfundur Kærleikslagsins er Mosfellingurinn Biggi í hljómsveitinni Gildrunni; hann samdi lagið við texta Ingibjargar Bjarnadóttur frá Gnúpufelli í Eyjafirði en söngkonan Stefanía Svavarsdóttir flutti. Einnig komu Leikskólakórinn og Álafosskórinn fram.

Dagskrá vikunnar er kynnt á www.kaerleikur.blog.is og á heimasíðu Mosfellsbæjar www.mos.is/kaerleiksvika.  Kærleiksvikan er einnig á Facebook.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert