Eigum að leyfa endurskoðun á öllum sviðum

Árni Þór Sigurðsson.
Árni Þór Sigurðsson. Ómar Óskarsson

Árni Þór Sigurðsson, þingmaður Vinstri grænna, sagðist á Alþingi í dag þeirrar skoðunar, að í þeirri stöðu sem Ísland er í eigi að leyfa endurskoðun á öllum sviðum, einnig hvað varðar aðild að Evrópusambandinu.

Ragnheiður Elín Árnadóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokks, tók ESB-málið einnig upp. Hún sagðist velta mikið fyrir sér pólitískri forgangsröðun ríkisstjórnarinnar og hvort þingmenn VG séu tilbúnir að fá úr því skorið hvort þjóðin vilji aðild að ESB, sama hvað það kostar. Hún sagði viðræðurnar kosta í það minnsta þúsund milljónir króna, og það á niðurskurðartímum.

Árni Þór sagði það varla koma þingmönnum á óvart að mælt sé með aðildarviðræðum við Ísland. Það hafi verið samþykkt af Alþingi að ganga til þessara viðræðna. Þó svo að stjórnarflokkarnir hafi verið - og séu - ósammála um aðildina sjálfa voru þeir sammála um að fara í þetta ferli og leyfa þjóðinni að kjósa. Hann sagði það ekki gefið, að þeir sem styðja aðildarviðræður styðji aðild að Evrópusambandinu.

Árni sagðist sjálfur vera tilbúinn að skoða aðild Íslands að ESB eftir að viðræðum lýkur, þ.e. hvort hagsmunum þjóðarinnar er betur borgið innan ESB. Og það þó hann sé ekki stuðningsmaður aðildar í dag.

„Skrifræðisbáknið í Brussel er óseðjandi ófreskja“

Ögmundur Jónasson, þingmaður Vg, kom einnig upp og sagði að taka beri tillit áhyggja þingmanna hvað varðar kostnað. „Skrifræðisbáknið í Brussel er óseðjandi ófreskja,“ sagði Ögmundur og að einnig að það þurfi að gæta þess mjög vel að Íslendingar verði ekki leiddir út á mjög kostnaðarsamar brautir í þessum efnum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert