Gætu lent í verri stöðu falli dómurinn lántakendum í hag

Gylfi Magnússon viðskiptaráðherra á Alþingi.
Gylfi Magnússon viðskiptaráðherra á Alþingi. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Gylfi Magnússon, efnahags- og viðskiptaráðherra, skýrði frá því á Alþingi í dag, að staðfesti Hæstiréttur niðurstöðu Héraðsdóms Reykjavíkur frá 12. febrúar sl. í gengistryggingamáli gætu lántakendur verið í verri stöðu en annars. Hann segir varhugavert að þingmenn veki upp falsvonir hjá lántakendum.

„Nú er staðan orðin sú, að úrlausn þessa ágreinings, hvort að um sé að ræða lán með ólöglegri gengistryggingu eða lögleg lán í erlendri mynt skiptir líklega ekki höfuðmáli fyrir alla lántakendur og hugsanlega kann svo að vera að hún skiptir engu máli fyrir mjög marga lántakendur,“ sagði Gylfi og skýrði svo út fyrir þingmönnum.

Hann sagði að ef Hæstiréttur staðfestir héraðsdóm um að um sé að ræða ólöglega verðtryggingu þarf að greiða úr málum með eðlilegum hætti sem byggir á sanngjörnum sjónarmiðum. „Þá blasir við og það er tiltekið í lögum um vexti og verðtryggingu, að miða beri við vexti sem birtir eru af Seðlabankanum og eru hagstæðustu útlánavextir bankanna á hverjum tíma.“

Gylfi sagði að ef ef ekkert hefði verið gert fyrir lántakendur frá 2008 myndi hagur þeirra batna við það að Hæstiréttur úrskurðaði þessi lán ólögmæt. „En vegna þeirra aðgerða sem gripið hefur verið til og í mörgum tilvikum bæta hag lántakenda mjög, annað hvort með því að færa niður höfuðstól eða færa niður verulega greiðslur í hverjum mánuði,  þá kemur það þannig út, alla vega með langtímalán eins og húsnæðislán til 25 eða 40 ári, að það gæti verið verra fyrir lántakendur ef dómurinn félli þeim í hag, ef við orðum það þannig.“

Gylfi tók þó fram að erfiðara væri að segja til um skammtímalán eins og bílalán og taka þurfi hvert mál fyrir sig í þeim efnum.

Jafnframt sagði Gylfi að það væri varhugavert hjá þingmönnum að vekja upp falsvonir hjá lántakendum „um að það sé einhver von til þess að Hæstiréttur komist að niðurstöðu sem lækkar lán mjög mikið umfram það sem þegar hefur verið gert með úrræðum sem eru í boði.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert