Minnisblað sendimanns birt á Wikileaks

Bandaríska sendiráðið í Reykjavík.
Bandaríska sendiráðið í Reykjavík.

Minnisblað Sams Watsons, sem stýrir bandaríska sendiráðinu í Reykjavík um þessar mundir, um fundi með íslenskum embættismönnum um Icesave-málið, var í kvöld birt á vefsvæði Wikileaks, sem sérhæfir sig í að birta leynileg gögn.

Í minnisblaðinu, sem fjallað var um í fréttum Ríkisútvarpsins fyrr í kvöld, fjallar Watson m.a. um fund sem hann átti með Einari Gunnarssyni, ráðuneytisstjóra utanríkisráðuneytisins, og Kristjáni Guy Burgess, aðstoðarmanni utanríkisráðherra. Segir Watson að þeir Einar og Kristján hafi lýst efnahagslegum hörmungum ef Icesave málið færi í þjóðaratkvæðagreiðslu og yrði fellt.

Þá segir Watson einnig frá fundi með Hjálmari W. Hannessyni, sendiherra Íslands í Bandaríkjunum. Hjálmar sagði á fundinum að stjórnarkreppa yrði á Íslandi ef þjóðin felldi Icesave í þjóðaratkvæðagreiðslu. Hjálmar sagðist þekkja Ólaf Ragnar Grímsson vel og sagði að hann væri óútreiknanlegur. 

Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra, sagði í kvöld að íslensk stjórnvöld hefðu átt fundi með mörgum ríkjum til að kynna málsstað Íslands og leita eftir liðsinni vinaþjóða í Icesave-deilunni.

„Við höfum ekki verið að skafa utan af því sem okkur finnst í þessum efnum. Við höfum komið okkar sjónarmiðum skýrt á framfæri um að við viljum fá stuðning annarra ríkja, þar á meðal Bandaríkjanna. Við höfum sagt að hlutleysi er ekki valkostur í þessari stöðu."

Skjalið á Wikileaks

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert