Óvönduð skjalagerð veldur réttaróvissu

Gylfi Magnússon.
Gylfi Magnússon. Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Gylfi Magnússon, efnahags- og viðskiptaráðherra, segir á Alþingi í dag að frágangur lána í erlendri mynt hafi verið í takti við þann bægslagang sem var í bönkunum á undanförnum árum. Ekki hafi verið vandað við skjalagerð og réttaróvissa með því tilbúin að óþörfu. Ef ljóst hefði verið frá upphafi að lánin væru í erlendri mynt væri þetta álitamál ekki uppi.  Það er hins vegar dómstóla að greiða úr málinu að svo stöddu máli.

Eygló Harðardóttir, þingmaður Framsóknarflokks, hóf utandagskrárumræðu um gengistryggð lán. Hún sagði almenning ekki hafa efni að bíða og þaðan af síður ráðast í kostnaðarsöm málaferli við bankanna til að fá greitt úr sínum málum.

Héraðsdómur Reykjavíkur sýknaði nýverið mann á Akureyri af kröfum Lýsingar hf. vegna eftirstöðva af bílaláni. Málavextir voru þeir, að vegna bílakaupa var slegið lán í íslenskum krónum sem bundið var dagsgengi erlendra mynta. Það segir héraðsdómur óheimilt og vísar til laga um vexti og verðryggingu.

Í desember féll dómur fyrir sama dómstóli þar sem ekki var talið andstætt lögum að gengistryggja lán með þessum hætti. Var þar á því byggt að ákvæði laga um vexti og verðtryggingu væru ekki fortakslaus um þetta efn

Hæstiréttur á eftir að taka bæði mál fyrir.

Magnús Orri Schram, þingmaður Samfylkingarinnar, segir erfitt að ræða hvort dómur héraðsdóms frá 12. febrúar hafi fordæmisgildi því Hæstiréttur hafi ekki skorið úr um það. Einnig sé erfitt að meta áhrifin ef Hæstiréttur staðfestir dóminn, því lánasamningar eru mjög fjölbreyttir og því gætu áhrifin verið mismunandi hjá viðskiptavinum sama banka sem kannski telja sig vera með sambærileg lán.

Lilja Mósesdóttir, þingmaður Vinstri grænna, sagði dóminn dæmi um gjaldþrot verðtryggingar. Hún benti á að Seðlabankinn sé að gera skýrslu um það hvernig hægt er að draga úr vægi verðtryggingar og í næsta mánuði verði opinn fundur um efni hennar. Hún sagði jafnframt að gera þurfi fólki kleift að breyta verðtryggðum lánum í óverðtryggð.

mbl.is

Bloggað um fréttina