Skýrist á næstu klukkustundum

Steingrímur J. Sigfússon.
Steingrímur J. Sigfússon.

Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra, segir að það muni skýrast á næstu klukkustundum, hvert framhaldið verður í viðræðum Íslendinga við Breta og Hollendinga um Icesave.

Steingrímur segir, augljóst að Bretar og Hollendingar hafi samningsvilja í málinu, annars væru viðræðurnar ekki á því stigi, sem þær eru nú. Aðspurður hvort til greina komi að lækka vaxtaprósentuna á lánum vegna Icesave umtalsvert sagðist Steingrímur ekki geta tjáð sig um það á þessari stundu.

Þá minnir Steingrímur á, að kosningar séu framundan í Bretlandi og gefur í skyn, að stjórn Gordons Browns vilji afgreiða málið fyrir þær kosningar. Ennfremur sé málið mjög viðkvæmt í Hollandi en að öðru leyti vildi hann ekki tjá sig um það.

Breska blaðið Financial Times sagði í morgun, að Alistair Darling, fjármálaráðherra Bretlands, hefði fallist á að skilmálum Icesave-lánsins til Íslendinga verði breytt og dregið úr þeim vaxtagreiðslum, sem Íslendingar þurfa að standa skil á.

mbl.is