Erfitt að meta áhrif nýs tilboðs

Nýtt tilboð Breta og Hollendinga í Icesave-deilunni kemur á morgun, að sögn fjármálaráðuneytisins. Samkvæmt erlendum fjölmiðlum snýst tilboðið um að breytilegir vextir verði á lánum  Breta og Hollendinga til Íslands í stað fastra 5,5% vaxta. 

Reuters fréttastofan hefur eftir heimildarmanni sínum að Íslendingar geti ekki hafnað nýja tilboðinu sem von er á frá Bretum og Hollendingum á morgun. Það byggi á samkomulaginu sem ríkin þrjú komust að í október, þar á meðal um fulla endurgreiðslu á lánsupphæðinni og sjö ára tímabil án afborgunar af lánunum. Hins vegar muni þeir nú bjóða breytilega vexti í stað 5,5 prósenta fastra vaxta eins og fyrri samningur gerði ráð fyrir.

Ólafur Ísleifsson, hagfræðikennari við Háskólann í Reykjavík, segir ómögulegt að meta hvaða áhrif þessi breyting, eins og sér, hafi á þann vaxtakostnað sem Íslendingar kunni að þurfa að bera. Kostnaðurinn fari að mestu leyti eftir því, hvernig eignum þrotabús Landsbankans verði ráðstafað og öðrum skilmálum í hugsanlegu samkomulagi.

Er staðhæft að ríkin tvö vilji leggja fram nýja tillögu til að komast hjá þjóðaratkvæðagreiðslu á Íslandi um Icesave-samninginn.

Að loknum ríkisstjórnarfundi í morgun sagði Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, ekki líklegt að tafir yrðu á þjóðaratkvæðagreiðslunni um Icesave, jafnvel þótt birting skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis kynni að dragast enn frekar.


mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert