Vill skoða tilboðið betur

Bjarn i Benediktsson formaður Sjálfstæðisflokksins.
Bjarn i Benediktsson formaður Sjálfstæðisflokksins. Ernir Eyjólfsson

„Ég held að það geti alveg verið grundvöllur fyrir okkur að þróa eitthvað út frá þeim stað sem við erum á í dag,“ sagði Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins um tilboð Breta og Hollendinga. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins, er hins vegar neikvæðari í garð tilboðsins.

„Ég tel rétt að taka þetta til skoðunar og láta á það reyna hvort við verðum sammála um hvernig eigi að bregðast við,“ sagði Bjarni.

„Ég vil ekki hafna neinu. Ég vil halda þessu opnu. Ég vil að við Íslendingar byggjum áfram á þeirri samstöðu sem við höfum náð hérna heima fyrir um að vinna málið þverpólitískt. Á morgun ætlum við að hittast aftur, hafandi lagt á ráðin hvert fyrir sig um það hvernig við sjáum fyrir okkur næstu leiki. Málið er á viðkvæmu stigi og besta að úttala sig ekki um hvað maður sér fyrir sér að gerist næst,“ sagði Bjarni.

„Ég held að menn líti ekki á þetta sem neina endanlega niðurstöðu,“ sagði Sigmundur Davíð. Hann sagðist telja að það tilboð sem hefði komið bæri vott um að það væri mikið uppnám í hollenskum stjórnmálum. Það setti strik í reikninginn.

„Ætli þetta þýði ekki að við séum að fara í þjóðaratkvæðagreiðslu og svo verði mynduð ný ríkisstjórn í Hollandi í haust og í Bretlandi í vor og við sjáum hvað setur eftir það. Ég held að það sé orðið tímabært að snúa sér að öðrum málum, uppbyggingarmálum, ef staðan er sú að hollenska ríkisstjórnin er ekki starfhæf og ekki hægt að vinna í þessu áfram,“ sagði Sigmundur Davíð.“

mbl.is

Bloggað um fréttina